Mánudagur 3. maí 2004
Ýsa fyrir fullt af fólki
Ég fór í dag og sótt 8 x 5kg af haf-frystri íslenskri ýsu sem ég sá um að panta fyrir hönd nokkurra Íslendinga á svæðinu. Núna eigum við Finnur því ýsu í soðið amk næstu tvo mánuðina og gleður það okkur mjög, enda bæði með hálfgerða klígu þegar kemur að því að kaupa kjöt því maður veit aldrei hvernig meðferð greyið skepnan fékk (Ofalin á bás? Sýklalyf í æð? Dýraheilar og mænur sem fóður?). En núna eigum við sem sagt glerfína ýsu – nammi namm!
Svo var ég að kaupa farmiða fyrir okkur öll til Montreal í Kanada!! Við förum þann 19. maí og verðum til 23. maí, því þá stendur yfir ráðstefna nokkur sem ég á að halda örlítinn fyrirlestur á (heilar 10 mín!). Reyndar var að koma í ljós að gögnin voru ekki jafn þæg og gert hafði verið ráð fyrir þannig að þetta verður ekki mjög stórbrotið, en það verður amk gaman að koma til Kanada!! 🙂