Rólegheit
Það er laugardagskvöld, og við Finnur erum í his-og-hers fartölvunum okkar. Reyndar er batteríið að klárast í minni, svo þetta verður líklega stutt. Ekkert merkilegt að gerast svo sem, nema jú, það rigndi í fimm mínútur í morgun, og það á kannski eftir að rigna aðeins á morgun líka. Þar með er komið haust.
Annars ætti ég að vera uppi í borg núna að gæsa eina stelpuna úr rafmagnsverkfræði-vinkvenna-hópnum. Það tókst hins vegar ekki að skipuleggja gæsunina betur en svo að hún klesstist upp við annað boð fyrr um daginn, sem var skipulagt með miklu meiri fyrirvara. Í bjartsýniskasti sagðist ég ætla að mæta í bæði, en guggnaði svo, og ligg núna í sófanum. Guggn, guggn!
Boðið um eftirmiðdaginn var annars svona ekki-íslenskt-boð. Þar voru samankomin fimm pör, öll á okkar aldri og öll barnslaus nema við. Það var því ekki talað um mikið annað en líkamsrækt og hinar ýmsu hjóla og hlaupalengdir og þar fram eftir götunum. Á því sviði hef ég augljóslega ekkert til málanna að leggja og því heldur utanveltu í samræðunum, á milli þess að við hlupum til svo að börnin hlypu ekki út á götu (það er mín líkamsrækt…).
Það er örlítið skrítin tilfinning að detta svona inn í hóp af fólki sem á svo til ekkert sameiginlegt með manni sjálfum. Maður fer sjálfkrafa að efast um að maður sé að gera “rétt” í sínu lífi, og af hverju maður sé til dæmis ekki að vakna rétt eftir sólarupprás til að fara út að æfa sig fyrir maraþonhlaup eins og allir eru greinilega að gera, svo ekki sé minnst á getu/færni/atorku við vinnuframlag, heimilisstörf, barnauppeldi og almenna kátínu. Merkilegt hvað maður á auðvelt með að rakka sjálfan sig niður alltaf… Bleh!