Sunnudagur 6. júní 2004
Fyrsta útilega Önnu Sólrúnar
Á föstudaginn fórum við í útilegu ásamt hópi af Íslendingum af svæðinu. Við fórum ekkert mjög langt, bara svona hálftíma akstur norður fyrir San Fran í garð sem heitir Samuel P. Taylor State Park, þar sem við gistum í tvær nætur, allt í allt 15 fullorðnir og 13 börn. Veðrið lék við okkur allan tímann, ekkert of heitt og á laugardeginum var ágætis gola/vindur sem hélt moskítóflugunum í burtu. 🙂
Við Finnur sváfum með Önnu á milli okkar í einu tjaldi og Steinunn gisti í litlu aukatjaldi sem Guðrún og Snorri komu með. Anna kunni bara vel við útiveruna, og fékk í fyrsta skipti að prufa hlaupakerruna ógurlegu – sem við þrjú ýttum/drógum til skiptist upp á fjallstopp fyrir ofan tjaldstæðið. Það verður líklega ekki endurtekið á næstunni… frekar kaupum við okkur góðan barna-göngu-bakpoka… 😉
Það var helst að móðurhjartað tæki kipp á næturna, því það var frekar kalt í tjaldinu og ég var með áhyggjur af því að henni væri of kalt á hausnum, en henni virðist ekki hafa orðið mjög meint af. Helst er smá roði í kinnunum á henni, sem við vitum ekki alveg hvernig slapp í gegnum sólarvörn nr. 50…
Dagurinn í dag…
Á leiðinni til baka á sunnudeginum (í dag) tókum við smá krók og fórum í bæ sem heitir Point Reyes Station og þar römbuðum við alveg óvart á alvöru bandaríska “parade” þar sem aðalgatan í þessum 350 manna bæ var þéttsetin af fólki á meðan eitt og eitt “atriði” gekk/keyrði/reið fram hjá. Svo keyrðum við út á Point Reyes sem er smá skagi sem nær út í Kyrrahafið og tókum myndir í rokinu af klettum/roki/brimi/ströndum.
Loksins komum við heim og þá var allt hafurtaskið sett í þvottavél því það var ryk alls staðar – enda ekki tjaldað á grasi heldur bara þurrum jarðvegi. Síðan bitum við á þreytta jaxlana og tókum til því á morgun ætlar leigusalinn okkar að gera “forskoðun” á íbúðinni því við erum víst að flytja eftir tvær vikur!!!