Enn ein helgin liðin
2009-09-27Uncategorized Standard
Það er sunnudagskvöld, allir gluggar opnir til að lofta út eftir hitabylgju helgarinnar, og við hjónakornin í his-og-hers fartölvunum. Ekkert sérstaklega markvert að frétta, bara búið að vera nóg um að vera. Í dag fór ég t.d. með Önnu í afmælisveislu eins bekkjarbróðursins, og svo enduðum við í mikilli kjötveislu hjá Siggu og Mario. Í gær bar það helst til frétta að við Anna heimsóttum eina skólasystur Önnu sem býr handan við götuna okkar, og býr svo vel að það er sundlaug í “complexinu” hennar.
Vikan sjálf leið svo gott sem á auto-pilot. Ég mætti á skrifstofuna þrjá fyrstu dagana, og kom einhverju í verk. Á fimmtudeginum vorum við beðin að ná í Bjarka á leikskólann á hádegi því hann var með vægan hita og lausar hægðir. Ekki var nú samt meira að honum en að við skutluðum honum á leikskólann aftur morguninn eftir, með þeirri skýringu að greyið væri að ganga í gegnum ferlega jaxlatöku. Já, fyrsti 2ja ára jaxlinn hefur brotist upp, en sem stendur er ennþá góm-húð yfir fjórðungi af tönninni. Ekki gaman!
Þessi komandi vika líður væntanlega líka á auto-pilot, fyrir utan að á laugardaginn leggja Finnur og Anna af stað í vikuferð til Íslands, til að vera viðstödd jarðarför afa Finns, hans Eymundar, sem lést fyrr í þessum mánuði, 96 ára að aldri. Það verður skrítin vika fyrir okkur Bjarka!