Mánudagur 30. ágúst 2004
Ekki búið enn
Sunnudagurinn var ekki mikið skárri heilsulega séð hjá henni Önnu litlu. Eftir að hafa samþykkt að gleypa tylenolið (parasetamólið, hitastillandi verkjalyf) um miðjan dag (þá með 38.8 stiga hita) kom það fljúgandi upp úr henni aftur og við ákváðum að hætta að sulla með meðöl þann daginn. Um kvöldið var hún aftur komin með 39.6 stig og settum við þá blautan klút á kollinn á henni til að kæla hana niður. Það dugaði svona lala.
Um nóttina var hún svo rosalega heit áfram og vildi ekkert drekka, og endaði á því að kúgast all svakalega klukkan 4 í nótt. Hringdum við þá á spítalann (höfðum hringt tvisvar á sunnudeginum, en hjúkkurnar voru voðalega rólegar yfir þessu) og fengum tíma fyrir hana á mánugdagsmorgninum.
Við sváfum öll ágætlega eftir atburði næturinnar, Anna meiri að segja drakk ágætlega og við mæðgurnar mættum ágætlega stemmdar á spítalann klukkan 10. Þar var mældist hún með 38.9 stiga hita og fékk tylenol, nú með greip-bragði (okkar er “cherry”)! Það hélst niðri og svo var hún skoðuð hátt og lágt, bæði af læknanema og svo af alvöru lækni. Það kom eiginlega ekkert í ljós – eyrun á henni voru fín, hálsinn fínn, hún var ekki mjög alvarlega uppþornuð og þar að auki of hress og athugul til að vera með heilahimnubólgu.
Það eina sem kom til greina var þvagfærasýking (lýsir sér sem hiti og uppköst í litlum börnum), svo hjúkkan kom og Önnu var haldið niðri á meðan settur var upp þvagleggur. Greyið litla! Síðan fórum við heim og sváfum vel og vandlega enda leið henni betur af tylenolinu. Læknirinn hringdi síðar um daginn og sagði að ekkert hefði fundist í þvaginu þannig að nú er bara að “bíða og sjá”…
Tylenolið sló hitann í fyrst sinn niður fyrir 38 gráðurnar, en þegar leið á kvöldið hækkaði hitinn og við gáfum henni nýjan tylenol skammt. Nú voru að koma hægðir (jibbííí!) og hitinn er kominn í 37.3 (jei tylenol!) þannig að hver veit, kannski verður þetta róleg nótt… 🙂