Mánudagur 6. september 2004
… niður, niður, niður, niður – alveg niður á tún!
Við komum heim úr tjaldferðalanginu í gærkvöldi, vel sveitt og rykug! Aldrei þessu vant tjölduðum við á “primitive” tjaldstæði, svo þar voru engar sturtur og bara kamrar (mjög mismunandi hreinlegir, sumur minntu á fjós, aðrir voru voða fínir og lyktarlausir – reyndar mátti í harðindum líka finna vatnsklósett á svæðinu). Við mættum eftir hádegi á laugardeginum, tjölduðum og fórum beint í göngutúr upp á fjallstopp. Anna undi sér ágætlega í bakburðarpokanum sem var keyptur daginn áður…
Við vorum sem sagt uppi á fjalli (Fremont Peak), og fyrir neðan mátti sjá borgir og bæi og jafnvel Kyrrahafið. Þar sem það hefur ekki rignt síðan í apríl eða maí, þá var allt mjög þurrt og því urðum við fljótlega vel rykug og börnin voru í “hvert er skítugasta barnið” keppni. Það var óvenju mikið af flugum á svæðinu, og sérstaklega voru geitungarnir hvimleiðir, en ég held samt að hún amma mín hefði verið stolt af því hvað ég umgekkst þá tiltölulega rólega… 🙂
Á sunnudeginum fórum við aftur í göngutúr, heldur strembnari en þann fyrri og í það skiptið var Anna ekki alveg sátt við lífið og endaði í fanginu á mér á lokasprettinum. Svo pökkuðum við niður í rólegheitunum, borðuðum kvöldmat og keyrðum heim á leið kát eftir góða skemmtun. Þegar heim var komið var heitt í húsinu enda búið að vera mikill hiti og í dag er spáð 37 stiga hita!! Við náðum að þvo allt og ganga frá öllu í gærkvöldi sem þýðir að dagurinn í dag getur farið í tölvuviðgerðir því eitthvað er heimilistölvan farin að láta illa. Oh, well…