Taugatitringur
[July is here! The move to Iceland is now frighteningly close and we’re all getting slightly nervous. Well, ok. A lot nervous. ]
Þar með er júní runninn upp. Það eru tíu dagar í að flutningafyrirtækið fjarlægi allar okkar eigur, fimmtán dagar í brottför til Nýju Jórvíkur og tuttugu og þrír í komu til Íslands. Í tilefni af því hefur andlega heilsa fjölskyldunnar að því er virðist hoppað fram af nokkuð háum kletti. Ég fór til dæmis með Önnu í síðasta píanótímann núna í dag og greyið kennarinn mátti hafa sig alla við að hemja Önnu greyið sem réð varla við sjálfa sig af stressi sem kom fram í einbeitningarleysi, iði og minnisleysi. Í staðinn fyrir að komast auðveldlega í gegnum þrjú ný lög rétt hafðist að komast í gegnum tvö ný lög. Nú er bara að vona að við getum haldið henni við yfir sumarið og svo fundið einhvern kennara á Íslandi í haust (á einhver hljómborð/píanó sem þeir eru ekki að nota?!)
Bjarki hefur sem stendur sloppið betur, hann veit að sjálfsögðu ekkert hvað hann á í vændum. Hins vegar er hann núna byrjaður á “ég vill gera sjálfur” skeiðinu sem er ó svo skemmtilegt. Jújú, ef maður gerir óvart eitthvað sem hann vill gera, eða er til dæmis kominn á skref 3 af 7, þá þarf að bakka aftur á skref 1 og leyfa honum að spreyta sig. Til dæmis vill hann núna sjálfur sjá um að fá sér morgunmat. Það innifelur að ýta stól að ísskápnum, ná í jógúrt, ná í skeið, setjast við borðið, opna jógúrtina og hræra í henni. Ef maður réttir honum jógúrtið, þá er hann vís með að ná samt í stólinn, setja jógúrtið aftur inn í ísskáp og byrja upp á nýtt. Gaman gaman, en það hjálpar óneitanlega að hafa gengið í gegnum það sama með Önnu svo maður veit hvað maður er að eiga við. Svo er hann loksins farinn að ná að klæða sig í og úr (aðallega úr) fötum sem hann féll glæsilega á á mörgum þroskaprófum ‘í den’.
Við fullorðna fólkið sveiflumst hins vegar á milli geðveikrar bjartsýni yfir í kvíðaköst yfir öllu því sem þarf að gera og óvissunni sem bíður okkar á Íslandi. Við erum búin að pakka í tuttugu kassa, en samt er talsvert eftir. Ég talaði annars við gæjann sem er yfir flutningsapparatinu og hann er svo ferlega vanur að maður róast allur. Í dag byrjaði ég svo að hringja til að segja upp hinu og þessu, eins og internetinu og símanum. Við munum byrja að auglýsa bílinn til sölu í vikunni, og til að undirbúa það þá er Finnur búinn að gefa greyið bílnum meiri athygli, ást og umhyggju síðustu daga en samanlögð undanfarin sjö ár. Við erum líka að vonast til að losa okkur við nokkur af ikea húsgögnunum (bæ, bæ horn-sjónvarpsborð sem hefur aldrei búið í horni).
Á meðan andlega ástandið hefur farið niður á við, þá hefur veðrið loksins farið að hlýna eftir afskaplega óvenjulega vott og kalt vor.
COMMENTS