Streptókokkar voru það heillin
2010-03-02Uncategorized Standard
Bjarki hélt áfram að vera með hitavellu í dag, svo að við skutluðum honum til læknis sem tók hálsstrok og röntgenmynd af brjóstkassanum. Lungun reyndust í fínu lagi, en það ræktaðist streptókokkasmit úr hálssýninu, svo að hann var loksins settur á sýklalyf. Hann má fara aftur á leikskólann á fimmtudaginn og er það vel. 🙂
Ég átti annars nokkuð Bjarka-frían dag því að ég eyddi morgninum með bekknum hennar Önnu í “vettvangs-skoðunarferð” til Marine Science Institute í Redwood City (Finnur vann að heiman í dag). Þar sem skólinn hennar Önnu er “foreldrar-taka-þátt skóli”, þá fá krakkarnir að fara í fullt af vettvangsferðum því að foreldrarnir keyra krakkana og þar með þarf ekki að leigja rútur sem kostar pening sem skólakerfið á ekki. Þessar ferðir hafa margar verið mjög skemmtilegar og ég hef haft lúmskt gaman af því að fá að fara með og læra nýja hluti.
Í morgun fórum við sem sagt út að flóa og það hjálpaði upp á sjávarstemminguna að það var grenjandi rigning. Það voru því blautir og kaldir krakkar sem fengu að draga reipi, klappa fiskum og kröbbum – enda merkilega margir krakkar hérna úti sem hreinlega eiga ekki regnföt. En það lifðu þetta allir af og ég bíð spennt eftir næstu ferð. 🙂