Afmæli
Afmælisdagurinn leið hljóðlega hjá. Ég fór með Bjarka til læknis í morgun sem skoðaði hann í bak og fyrir og ákvað síðan að bíða og sjá í einn dag áður en hún færi að leita að sýkingum með hörku (röntgenmynd, þvagprufa o.s.frv.). Svo náðum við í Önnu úr skólanum og fórum heim og borðuðum hádegismat. Ég mútaði Önnu með World of Goo á Wii tölvunni svo hún var róleg á meðan ég svæfði Bjarka og síðan hófust sím/tölvu-töl til Íslands og Englands – og Anna dandalaðist inn og út á meðan enda leiðinlegt að hanga inni allan daginn. Hún sagðist hafa sópað greninálar af einni gangstéttinni, en ég á eftir að staðfesta það.
Eftir að Bjarki vaknaði var út um öll símtöl en mig langaði að skutla í eina köku svo krökkunum var stillt upp fyrir framan sjónvarpið (sem Bjarki hefur lært að meta í þessum endalausu hitavelluveikindum). Inn fór gulrótarkaka, síðan kom Finnur heim og við borðuðum kvöldmat og fengum köku í eftirrétt. Ég fékk líka góðar gjafir: svuntu (svo ég hætti að eyðileggja fötin mín með olíublettum við eldamennsku), “TrueBlood” kilju svo og Super Mario Galaxy fyrir Wii tölvuna.
Eftir að krakkarnir voru komnir í háttinn eyddi ég dágóðri stund í að lesa yfir allar afmæliskveðjurnar á Fésbókinni og síðan spiluðum við hjónakornin smá Mario sem lofar góðu. Nú er kominn háttatími og rúmlega það eins og vanalega. Ég þakka kærlega fyrir allar góðu afmæliskveðjurnar!! 🙂