Snjór!
Ég minntist á það um daginn við einn rannsakandann uppi í skóla að ég væri með snjó-söknuð. Hann bauð okkur þá svo til samstundis að koma upp í fjöll og dvelja í bústaðnum sem hann og konan hans eiga yfir eina helgi. Veðurspáin var næstum búin að blása ferðina af, eða amk stytta hana talsvert, en þegar ekkert rættist úr lofaðri rigningu (og meðfylgjandi snjókomu í fjöllunum) þá pökkuðum við á mettíma á föstudagskvöldi og “skutluðumst” uppeftir á þremur og hálfum tíma.
Á laugardeginum var létt snjókoma og við lékum okkur í hlíðinni á bak við húsið þeirra ásamt því að ég fór með krakkana í sleðaferðir um hverfið. Á sunnudeginum brast á með bongóblíðu og við Anna leigðum gönguskíði og fórum með hjónunum í ferð um frosið stöðuvatn í næsta nágrenni við bústaðinn. Anna stóð sig eins og hetja og entist miklu lengur en nokkur bjóst við. Ég set inn göngumyndir frá farsímanum við tækifæri. 🙂