Recap-póstur
Það hefur verið heldur lítið um blogg-pósta undanfarið, enda einhvern veginn verið afskaplega mikið í gangi og lítil orka aflögu til skrifta. En ætli það sé ekki best að “hripa” niður nokkrar línur til að gera seinni hluta febrúar skil.
Vikuna 15.-19. febrúar þá var skólinn hennar Önnu lokaður vegna vetrarfrís. Við vorum ekki búin að gera neina sérstakar ráðstafanir eins og að skrá hana á námskeið svo við spiluðum þetta eftir eyranu. Hún átti einhver pleideit með bekkjarfélögum sínum, en mestu munaði að við fengum Lulu í slíp-óver (sleep-over) í byrjun vikunnar og síðan svaf Anna heima hjá henni aðfararnótt fimmtudagsins.
Það hentaði alveg glimrandi því Bjarki varð veikur á miðvikudeginum og það munaði öllu að Anna var í burtu á fimmtudeginum. Á föstudeginum var ég svo með þau tvö heima allan daginn sem gekk sæmilega (amk lifðu það allir af), sem ef svona um það bil standardinn á þessu heimili. 😉
Mesta fjör vikunnar var á miðvikudeginum þegar við Anna fórum með Katie, Lulu og Sean upp í borg. Við ætluðum á vísindasafnið, en þegar þar var komið þá blasti við geðveikasta röð sem ég hef nokkurn tímann séð. Það reyndist vera ókeypis-dagur á safninu og við vorum ekki lengi að breyta um plan og ákváðum að fá okkur að borða við ströndina, og fara síðan í dýragarðinn. Það reyndist frábær ákvörðun því það var óvenju milt og gott veður í borginni og öll dýrin úti við og í góðu skapi.
Á ströndinni.
Í litlu dýragarðslestinni.
Anna urrar sem ljón við ljónabúrið.
Aðfararnótt laugardagsins 20. febrúar þá birtust hér fjórir góðir gestir eftir langa keyrslu frá LA: Gunnhildur frænka, Jón, Orri og Helena. Þau lentu í þeim leiðindum að leigusalinn þeirra ákvað að selja skyndilega ofan af þeim húsið og þau ákváðu að nota tækifærið og flytja hálfa fjölskylduna (Gunnhildur og Helena) frá LA, en Jón fylgir líklega á næstu mánuðum (löng og flókin saga þar að baki). Endastöðin er ekki fullkunnug enn, en í millitíðinni munu Gunnhildur og Helena búa hjá pabba mínum í Englandi.
Fjórmenningarnir gistu sem sagt hjá okkur fram á miðvikudag, þegar mæðgurnar flugu yfir Atlantshafið og feðgarnir keyrðu aftur suður. Það var afskaplega gaman að hafa þau í heimsókn, enda yfirleitt bara við fjögur hérna heima við. Bjarki heillaði þau að sjálfsögðu upp úr skónum og Anna fékk að spila Wii tölvuleiki (World of Goo límdist inn í heilann á henni). Við vorum lítið á faraldsfæti, enda fjórmenningarnir búnir að vera á spretti við að ganga frá húsinu og því kominn tími á smá afslöppun.
Orri, Jón, Helena og Gunnhildur kvöldið fyrir brottför.
Þar með var samt ekki allt búið því í gær vaknaði Bjarki með 38.5 stiga hita og var þar með leikskóla-óhæfur. Þar með breyttist plönuð fjölskylduferð í Cirque du Soleil í stelpnaferð, því Finnur var heima með Bjarka og Sarah kom með okkur Önnu. Finnur fer hins vegar í staðinn fyrir Söruh eftir tvær vikur með Augusto. Sirkusinn var skemmtilegur og sem betur fer ekki eins ógnvekjandi og sýningin sem við sáum fyrir tveimur árum síðar sem olli Önnu andlegum örum. 🙂
Og þar með erum við komin að deginum í dag. Hann var með afbrigðum rólegur, enda við Bjarki (37.7 C) bara ein heima í allan dag. Við lásum bækur, spiluðum á gítar, horfðum á YouTube, borðuðum og lögðum okkur og sem fyrr virðast allir hafa lifað þetta af. Helst var það markvert að það var vindur úti í dag og rafmagnið viðkvæmt eftir því. Var ég búin að minnast á að við búum í Kaliforníu? 🙂
Í næstu viku get ég löglega hafið vinnu í Bandaríkjunum, og það lítur út fyrir að ég endi aftur uppi í skóla, að vinna fyrir gamla leiðbeinandann minn að skrifa pappír upp úr ritgerðinni minni. Ég fór í eitt atvinnuviðtal í vikunni hjá fyrirtæki sem er að gera radar-hluti sem ég er nákunnug, en því miður er svo til öll þeirra vinna takmörkuð við bandaríska ríkisborgara. Svona útlendingar eins og ég erum svo hættulegir… Ég hef aðeins verið að líta í kringum mig, en hef ekkert séð sem mér finnst ferlega spennandi. Við sjáum hvað setur…