Veikindi
2010-01-20Uncategorized Standard
Anna lufsaðist niður í morgun, og vildi ekkert borða, bara drekka vatn. Það var í hæsta máta óvenjulegt, enda kom í ljós að hún var með 38.6 stiga hita, svo og blautan hósta, og var send beint aftur í rúmið. Klukkan tíu lufsaðist hún fram úr aftur, enda sá hún fram á gómsætt sjónvarpsgláp. Þegar leið á daginn hresstist hún aldeilis við, en ég er ekki alveg viss um að hitinn sé alveg farinn úr henni. Þetta er líklega sama pest og hélt Bjarka heima vel kátum en heitum alla síðustu viku, og við verðum því bara að sjá hvernig henni líður á morgun.
Á meðan hefur rignt eldi og brennisteini (svona nokkurn veginn) hérna á svæðinu í þrjá daga, og gott ef það voru ekki þrumur og eldingar í svo til allan dag. Við búum hins vegar svo vel að vera í vel hljóðeinangruðu húsi (enda afskaplega nálægt hraðbraut) og því erfitt að gera greinarmun á þrumum og flugvélagný, en við búum líka nálægt herflugvelli. Anna var því alveg róleg, sem er mikill munur frá því þegar við bjuggum á kampus og hún fékk skjálftakast af hræðslu í hvert sinn sem það kom þrumuveður (sem var sem betur fer ekki oft).