Komin heim aftur
2010-01-02Uncategorized Standard
Við vorum að skríða inn um dyrnar hérna heima hjá okkur núna rétt fyrir miðnætti, eftir næstum 10 tíma ferðalag. Sjálf keyrslan tók líklega ekki nema í kringum 6 og hálfan tíma, en við stoppuðum vel og lengi í Santa Barbara eftir 1.5 klst akstur frá LA, til að viðra krakkana og borða. Þegar við lögðum af stað aftur var orðið dimmt, svo ökuferðin norður 101 var ekki jafn áhugaverð sjónlega séð en á móti kom að krakkarnir sváfu alla leiðina, sem var gulls ígildi geðheilsunnar vegna.
Við ætluðum að leggja snemma af stað um morguninn og stoppa oft og skoðast um, en í staðinn fór Finnur í Mr. Fix-It ham og fór eins og stormsveipur um hús þeirra Gunnhildar og Jóns. Hann lagaði sprinklera kerfið sem lak, þá fór að leka undir eldhúsvaskinum svo hann lagaði það, síðan lagaði hann eitt hjól, dyttaði að fartölvu og gott ef það var ekki eitthvað meira en ég er orðin of þreytt til að muna það. Niðurstaðan var sú að við lögðum ekki af stað fyrr en um tvöleytið, en það var svo sem allt í lagi.
Það verður seint sagt að ökuferðin hafi verið sérstaklega skemmtileg, en það var að minnsta kosti gaman þegar forstilltu útvarpsstöðvarnar fóru að virka aftur í bílnum þegar við fórum að nálgast leiðarenda.