Húsgagnaflóð
2010-01-19Uncategorized Standard
Anna Sólrún sagði upp úr þurru síðasta sunnudagsmorgun að hún vildi endurraða húsgögnunum í herberginu sínu. Við mældum því út herbergið og teiknuðum á blað, ásamt því að klippa út blaðsnepla til að tákna húsgögnin.
Teikning af herberginu í tommum, og blaðasneplar til að tákna
húsgögnin sem voru í herberginu á sunnudagsmorgni.
Þar sem ég hugsaði málið komst ég að þeirri niðurstöðu að hún væri vaxin upp úr litlu Ikea Robin húsgögnunum sínum, og kominn tími á eitthvað (nýtt og) stærra. Það er víst bara svo að föt fyrir 6 ára taka meira pláss en föt fyrir 3ja ára, og svo var bókahillan löngu sprungin. Við mæðgur fórum því að skoða hitt og þetta á netinu, og það kom fljótlega í ljós að Anna veit hvað hún vill, líkt og móðir sín. Verst var að við mæðgur vorum ekki alveg sammála um kosti bleikra húsgagna!
Eftir smá búðarráð í netheimum, þá brugðum við undir okkur betri fætinum og keyrðum til Ikea, klukkan tvö á sunnudegi. Það tók okkur tíu mínútur að fá bílastæði, og búðin var vel full af fólki, en þrátt fyrir það urðum við mæðgur fljótt sammála um hvað kaupa skyldi. Sem fyrr dugði sjötta skilningsvitið til að mæla nákvæmlega út hvað kæmist inn í litla bílinn okkar af húsgögnum, og við keyrðum með pakkaðan bíl heim.
Svo til allur mánudagurinn (sem var frídagur) fór í henda öllu út úr herberginu hennar Önnu, færa rúmið frá einni hlið herbergisins yfir á hina hliðina, og setja saman kommóðu, hillu og ‘náttborð‘ (sem verður ekki notað sem náttborð). Anna sagði síðan hvar hún vildi fá húsgögnin og svo hrundum við öll örmagna í rúmið.
Anna fyrir framan nýju kommóðuna sína á þriðjudaginn. Hún
var hörð á því að fá rauða hillu, ég rak augun í rauða náttborðið
á hjólum og ég prísa mig sæla fyrir að bleika kommóðan í Ikea var
alveg jafn lítil og gamla kommóðan hennar og þar með ókaupanleg.
Þriðjudagseftirmiðdeginu eyddum við Anna í að raða dótinu aftur inn í herbergið hennar, svo og ganga frá gömlu húsgögnunum. Við færðum bókahilluna inn í svefnherbergið okkar til að halda utan um sívaxandi bókastaflana þar. Bjarki vaknar nefnilega alltaf fyrir allar aldir og heimtar að lesa bækur á meðan við sofum.
Kommóðan breyttist í sængurfatageymslu, á meðan sængurfatageymslan (gömul leikfangakista úr Ikea) fór niður um hæð og geymir núna duplo-kubba safn heimilisins sem bjó áður í þremur minni kössum. Hærri Robin bókahillan verður inni á skrifstofu (sem geymir fleiri Robin húsgögn), en gagnger endurröðun og tiltekt á skrifstofunni verður verkefni næstu viku.