Grillaður lax með dilli og appelsínum
2010-01-01Uppskriftir Standard
Umsögn
Einfaldur og þægilegur hversdagsmatur – ef maður hefur aðgang að bæði grilli, dilli og lax (villtum ef ekki íslenskur). Dill er í miklu uppáhaldi hjá bæði Önnu og Hrefnu og því valdi ég þessa uppskrift til að prófa eitthvað nýtt. Uppskriftin er fyrir heilan lax en ég notaði reyndar bara nokkrar sneiðar og reyndi að haga uppskriftinni eftir því.
Innihald
heill lax, 1,5 – 2 kg
100 g smjör
1-2 appelsínur
2 msk saxað, ferskt dill
2 pressaðir hvítlauksgeirar
salt
Aðferð
Hreinsið og hreistrið laxinn. Stráið á hann salti að utan og innan. Skerið appelsínubátana í bita. Hrærið saman smjöri, dilli og hvítlauk. Smyrjið þykku lagi af smjöri á laxinn beggja vegna. Setjið litla smjörbita og appelsínubita inn í laxinn. Pakkið laxinum vel inn í álþynnu og setjið á grillgrindina. Snúið honum einu sinni meðan grilltíminn varir. Gott er að miða við 2 mín. á hvorri hlið fyrir hver 500 g (laxinn er til þegar hann losnar auðveldlega frá beinunum.). Ég hafði hann ca. 10 mín á hvorri hlið sem var auðvitað aðeins of mikið fyrir flökin sem ég notaði, en rétt að haga það eftir stærð fisksins sem þið grillið.
Berið laxinn fram með fersku salati og kúskús/kartöflum/hrísgrjónum – ég valdi kúskús. 🙂
Tilvísun
Uppskriftin er stolin og staðfærð af vefsíðu Eðalfisks.