Dúkkuteppið
Hún Kerri vinkona var svo góð að redda mér fullt af bómullargarni þegar ég endaði á spítala fyrir rúmlega tveimur árum. Stytti ég mér þá stundir við að hekla búta í hekluteppi, eins og Anna mamma Finns kenndi mér að gera fyrir meira en áratug síðan (húrra fyrir vöðvaminni!). Mér tókst ekki að klára neitt sérstaklega marga búta, því að tíminn á spítalanum varð heldur endaslepptur, fyrir utan það að það er merkilega erfitt að hekla með nál í æð.
Þegar heim var komið rykkti ég saman einum og einum bút, en undir lokin ákvað ég að teppið yrði bara að vera dúkkuteppi, og kláraði það sem þurfti upp í 20 búta. Afraksturinn er hér að neðan.
Glöggir lesendur sjá kannski að teppið er heldur “skakkt”. Það er líklega eitthvað sem ég get lagað með því að þvo og teygja það til aftur, en því verður heldur ekki neitað að líklega hefði ég átt að nota stærri heklunál, svo og hekla lausar. Það gengur bara betur næst.