Þar fór enn ein hárgreiðslukonan
2010-01-14Uncategorized Standard
Það er skrítið að lifa í heimi þar sem fólk er að upplifa gríðarlegar hörmungar á einum stað, á meðan allt er bara í afskaplega þægilegum gír á öðrum stað. Þannig var ég ekki að týna mannslíkama út úr byggingarústum í dag heldur snérist minn dagur að mestu um hárgreiðslutíma. Og jú, við erum búin að láta fé af hendi rakna til að friða samviskuna, en heilinn á samt í erfiðleikum með að láta þessa tvo veruleika passa saman. Þar á ofan hjálpar það engum að maður leggist í þunglyndi yfir óréttlæti og grimmd veraldarinnar, svo að nú er ég farin að forðast fréttir af hamförunum. Í takt við það…
Já, hárgreiðslutíminn. Bjarki hélt áfram að vera heima í dag, en var sem betur fer minna veikur í dag en í gær. Eins og ég hélt að lög gerðu ráð fyrir, þá hringdi ég í morgun til að fresta tímanum mínum í klippingu í dag. Komst þá að því að það er 24 tíma-frestunarregla, sem þýddi að ég þyrfti að borga tvöfalt fyrir klippingu ef ég mætti ekki. Þá var lítið annað að gera en að hóa í Finn, sem kom sem riddari á hvítum hesti (erm, bíl) og vann að heiman á meðan Bjarki svaf.
Eftir að hafa rekið mig svona harkalega á frestunar-regluna, þá ákvað ég að þetta yrði í síðasta skiptið sem ég færi til þessarar klippikonu, sem ég er búin að vera hjá í tæp tvö ár. Þyngra vó þó að klippistofan er rétt hjá kampus, og ég hef ekkert að gera þangað lengur. Það var samt eins og eitthvert veraldaraflið hefði ákveðið að létta mér enn ákvörðunina, því að þegar klippikonan tók á móti mér, þá lyktaði hún eins og skorsteinn – en ekki nóg með það – heldur get ég svo svarið það að hún var nýbúin að láta sprauta einhverju í varirnar á sér.
Nú búum við ekki í LA, svo að við (ég amk) rekumst ekki mikið á fólk með, erm, nýjungar í andlitinu. Þannig að ég vissi bara ekki alveg hvað ég átti að gera. Þarna var komin kona sem ég þekki, með varir sem ég þekkti ekki, og litu frekar óþægilegar út. Ég meina, á maður á kommenta á svona? Ég var næstum búin að spyrja hana hvort hún hefði lent í slysi, en það hefði líklega ekki endað vel. Þannig að allan tímann á meðan hún var að klippa mig var ég í stanslausri innri baráttu um að vera ekki að stara á varirnar á henni, eða grandskoða hvað annað hefði breyst. Óþææægileeeegt.
Þannig að þar með var úti um það. Ég yfirgaf klippikonuna þar á undan því að hún opnaði sína eigin stofu, varð ofur-stressuð, og hengdi upp sjónvarp svo að það var varla hægt að ná sambandi við hana. Það verður fróðlegt að vita hvað gerist næst!
Af Bjarka er það að frétta að hitinn var 37.9 í morgun, en hafði hoppað upp í 38.5 síðdegis. Hann verður því heima á morgun líka, og svo er þriggja daga helgi framundan. Það verður fjör…