Rör í eyru
2009-12-08Uncategorized Standard
Bjarki fékk rör í eyrun í morgun. Það sem af er hausti þá hefur hann farið á fjóra kúrsa af sýklalyfjum, og ef marka má síðasta vetur, þá máttum við búast við öðru eins eftir áramót. Þess fyrir utan mældist hann með skerta heyrn í mars (en eðlilega heyrn í júní, þegar eyrun voru þurr) svo að til að hjálpa málþroskanum, svo og bæta almenna líðan þá ákváðum við að skella rörum í eyrun.
Það var bæði gott og slæmt að hann átti að mæta klukkan 06:30 í morgun. Gott vegna þess að hann var ekki orðinn of svangur, því hann mátti ekkert borða frá miðnætti, en slæmt vegna þess að nóttin í nótt var víst sú kaldasta í allan vetur, og aldrei þessu vant fór ég út til að setja bílinn í gang og skafa af rúðunum (með plastkorti, hér fást engar græjur í rúðuskafanir) áður en ég fór með Bjarka út í bílinn. Bjarki hefur annars verið að vakna milli 5 og 6 á morgnana í nokkrar vikur, og hann því bara afskaplega kátur með að fá að fara beint “út í bílinn”. Honum finnst alveg ferlega leiðinlegt heima hjá sér víst!!
Nema hvað, við vorum mætt á réttum tíma, og þurftum ekki að bíða lengi á biðstofunni. Þegar inn var komið var Bjarki vigtaður, og súrefnismagnið mælt. Svo fékk hann að drekka smá róandi lyf og það var alveg kostulegt þegar hann uppgötvaði að tungan væri orðin dofin (hann stakk henni út, og togaði í hana með puttunum). Hann var orðinn vel afslappaður þegar svæfingarlæknirinn svo og eyrnalæknirinn stoppuðu og spjölluðu við okkur. Síðan kom hjúkkan og bar hann í burtu og ég fór á biðstofuna á meðan.
Aðgerðin tók um hálftíma, og tíminn leið extra hratt því að ég rakst á vinafólk okkar frá gamla leikskólanum hennar Önnu. Dóttir þeirra var á leið í hálskirtlatöku og það var gaman að rabba við þau og fá að vita hvernig gengi með lífið og tilveruna. Skömmu eftir að þau hurfu inn þá kom læknirinn fram og sagði að það hefði allt gengið vel, og að það sem hafði einu sinni verið vökvi í hægra eyranu hefði verið orðið að hörðu slími. Hann sagði að hann hefði ryksugað næstum allt slímið í burtu, en að restin yrði að fara með eyrnadropum.
Svo var ég tekin inn til Bjarka, þar sem hann barðist um að hæl og hnakka í höndunum á einni hjúkkunni, alveg svoleiðis hundfúll með þetta allt saman. Ég tók við honum, og hann barðist við mig á hæl og hnakka í einhverjar tíu mínútur í viðbót áður en ég fór að ná sambandi við hann. Að lokum komumst við að samkomlagi um að hann myndi fara í kerruna sína og þá fyrst varð hann næstum sáttur. Næst ætla ég að muna eftir að klippa á honum neglurnar…
Við komum við í apótekinu á leiðinni heim (hann vildi sko ekki fara beint heim!) og þar dúlluðum við okkur heillengi. Þegar heim var komið var Bjarki orðinn vel hungurmorða, og ekki par sáttur við að hafa endað heima. Þegar mér loksins tókst að sannfæra hann um að fá sér séríósbita, þá skipti hann snarlega um skoðun og gúffaði í sig morgunmat. Eftir matinn fórum við svo upp og lásum tvær bækur áður en ég og hann lögðum okkur í þrjár klukkustundir, enda bæði búin á því!
Eftir lúrinn var Bjarki bara nokkuð brattur, og ég sleppti því að gefa honum ofur-sterka verkjalyfið sem læknirinn ávísaði á hann (tylenol+kódín) og hann fékk bara standard ibuprofein í staðinn. Hann borðaði vel, lék sér smá og náði svo í skóna sína til að fara út! Við fórum aftur í apótekið að ná í eina lyfið sem vantaði, og svo til Söruh og Jason í smá heimsókn.
Í kvöld virtist Bjarki vera vel kátur, og því allar líkur á því að hann fari á leikskólann á morgun. Við sjáum hvað setur í fyrramálið.