Jólaundirbúningur
2009-12-10Uncategorized Standard
Frá og með þessari viku, þá mun Anna bara fara þrjá daga í viku í eftirskólapössun. Í dag var fyrsti vikudagurinn hennar heima síðan í haustbyrjun, og hann fór að mestu í jólaundirbúning. Eftir hádegislúr í herberginu hennar (þar sem ég lúrði eftir svefnlitla nótt á meðan hún lék sér í sæmilegum rólegheitum) þá tókum við okkur til og settum upp jólaseríu í stofunni. Því næst bjuggum við til smákökudeig.
Í miðri deighnoðun rann það hins vegar upp fyrir mér að við ættum engan smjörpappír, og því endaði deigið inni í ísskáp á meðan við hjóluðum vel dúðaðar út í búð. Við komum of seint heim aftur til að geta hafið bakstur, og því verður deigið að bíða til morguns.
Hér er annars búin að vera mikil kuldabylgja, amk á kalifornískan mælikvarða. Í gær gerðist það t.d. í allra fyrsta sinn að rúðurnar á bílnum voru ennþá frosnar klukkan rúmlega átta um morguninn. Það var áhugavert að keyra um og sjá að allt sem var ennþá í skugga var gaddfreðið, en að sólin var búin að þýða það sem hún náði til. Ég sá líka einn bíl þar sem ökumaðurinn virtist ekki hafa hugmynd um til hvers allar þessar (hita) línur eru á afturrúðum bíla… eða kannski var hann bara ekki mikið fyrir það að líta aftur fyrir sig.
Af Bjarka er það helst að frétta að hann fór í leikskólann í gær og í dag, enda bara kátur og það kjaftar á honum hver tuskan þessa dagana. Hann er líka allur að færa sig upp á þrjóskuskaptið, heimtandi hitt og þetta í sí og æ, og ekkert auðvelt að telja honum hughvarf (nei, það eru engir tómatar til í bílnum!). Þeim systkinunum kemur svona upp og ofan saman, oft leika þau sér en Anna veit líka alveg hvernig á að fá Bjarka til að öskra (reyna að taka hann upp) á meðan hann er ekki lengi að rífa í hárið á henni ef honum mislíkar eitthvað það mikið að hann er orðinn reiður.
Gaman að þessu!