Í suðursveitum
2009-12-28Uncategorized Standard
Á öðrum degi jóla tókum við okkur til á mettíma og keyrðum sem leið lá niður millifylkjaveg númer fimm til borgar englanna að hitta Jón og Gunnhildi. Við hittum þau síðast fyrir ári síðan en við eyddum einmitt áramótunum með þeim í fyrra.
Þessi forláta In-n-Out hamborgarastaður býr á vegamótum
millifylkjavegar fimm og vegspotta númer fjörtíu-og-eitt.
Ég er ekki frá því að við höfum stoppað þarna á öllum okkar
ferðum á milli nyrðri og syðri fylkishluta. Ég hélt að þetta
væri eina In-n-Out búllan á leiðinni, en núna tók ég eftir
einni nýrri rétt norðan við fjöllin sem skilja að miðdalinn
(þar sem við eyddum 3 klst á keyrslu) og borg englanna.
Þegar til borg englann var komið fórum við ekki beint heim til Gunnhildar og Jóns, heldur í mjög svo módern hús sem þau eru með aðgang að á meðan góðvinahjón þeirra eru á Íslandi yfir jólin. Þar gistum við því hitakerfið í húsi Gunnhildar og Jóns var í lamasessi.
Anna og Bjarki að fikra sig niður stigann í
fína húsinu. Húsið er allt í módern stíl,
sem myndast vel, en er kannski ekki það
al-praktískasta, sérstaklega með börn.
Við fundum fyrir því fyrsta kvöldið að þó að það væri gaman að vera í svona “hönnuðu” húsi með hitunarkerfi í góðu lagi þá hafði markmið ferðarinnar verið að eyða tíma með Gunnhildi og Jóni, sem var erfitt að gera á meðan við vorum í sitt hvoru húsinu í sínu hvoru bæjarfélaginu. Við ákváðum því að bíta á jaxlinn og flytja okkur yfir í þeirra hús daginn eftir þrátt fyrir næturkuldann.
Komin í húsið þeirra Jóns og Gunnhildar. Bjarki var gríðarlega
spenntur fyrir hundinum Lucy, á meðan Anna tók sér góðan tíma
í að vinna upp hugrekki til að umgangast hana.
Við fluttum sem sagt okkar hafurtask á milli hús á sunnudeginum, og eyddum rólegu eftirmiðdegi með þeim hjónakornum, svo og Helenu dóttur þeirra, Ármanni syni Jóns og bróðurdóttur Jóns og dóttur hennar. Það er sko alltaf nóg af fólki í kringum Gunnhildi og Jón! Því verður ekki neitað að húsið var ískalt í nótt, en það slapp fyrir horn með náttfötum og mörgum sængurlögum.
Í dag, mánudag, gerðist það helst markvert að við fórum á bókasafnið og fengum lánaðar 28 barnabækur, og fórum svo í örlítið búðarráp. Jú, og svo tókst vini þeirra hjóna loksins að laga hitunarkerfið, svo nú líður öllum betur og von á talsvert hlýrri nótt en í gærnótt.
Það er mest lítið planað fyrir næstu daga annað en bara slappa af, fara með krakkana á leikvelli og tsjilla. Það heillar lítið að standa í biðröðum með öllum hinum foreldrunum í einhverjum “skemmtigarði”, og þar sem að við eigum eftir að þurfa að keyra til baka, þá er ólíklegt að við leggjum í langan akstur til að skoða eitt eða neitt.