Krakkalakkar
Anna fór í klippingu fyrir viku síðan, og meirparturinn af hárinu fékk að fjúka. Nú er ekkert mál að greiða hárið á morgnana og við erum afskaplega fegin að vera laus við hinn daglega grátur. Í dag fórum við mæðgur saman að ná í Bjarka á leikskólann, og sá var nú kátur að sjá stóru systur (og mömmu, hann er búinn að vera á miklu mömmu-skeiði undanfarið).
Ég verð annars að skjalfesta það að ég fór með Bjarka í enn eitt þroskaprófið á Stanford spítalanum (númer 3 eða 4) og í þetta sinn var læknirinn það sátt að hún útskrifaði hann. Á leiðinni út fengum við samt bækling með upplýsingum um “frekari þjónustu” og viðvörun um að fyrirburar læri oft öðruvísi en venjuleg börn. Ekki að þau geti ekki lært, heldur að þau þurfi stundum eitthvað sérsniðið. Við þurfum vonandi ekki að hafa áhyggjur af því í þrjú ár eða svo…