Markaður og afmæli
2009-10-04Uncategorized Standard
Bjarki var sko ekki á þeim buxunum að sofa frameftir, þó svo að hann hafi farið extra seint að sofa í gærkvöldi, eftir að við ílengdumst hjá Augusto og Söruh. Nei, hann var vaknaður klukkan sjö, og þar með var friðurinn úti. Hann tók fljótlega eftir að það vantaði pabba (“enginn pabbi”) og þegar hann leit inn til Önnu þá vantaði hana líka (“engin… engin… engin Anna”). Það er líklega ágætt að við erum tiltölulega nýkomin frá Íslandi, því að allir þeir sem hann hefur spurt eftir eru “á Íslandi”, og núna eru pabbi og Anna líka “á Íslandi”.
Ég spjallaði við Finn í tölvunni, og fékk að heyra að ferðin hefði gengið eins og í lygasögu. Ekki nóg með að báðar flugvélarnar hefðu lent snemma, heldur fengu þau heila röð út af fyrir sig í báðum vélum, og töskurnar voru mættar á undan þeim á færibandið. Er það ekki skilgreiningin á góðu ferðalagi? 🙂 Síðast þegar heyrðist þá var Anna að sýna ömmu sinni heimavinnuna sína, og Finnur að sýna Steinunni Google Wave… 🙂
Eftir morgumat og smá stúss, þá komumst við Bjarki loksins út úr húsi rúmlega tíu, og héldum á vikulega “farmers market” sem er haldinn í miðbænum. Þar var pakkað af fólki, og við hittum meiri að segja Svövu Maríu og fylgifiska, svo og eina mömmuna úr skólanum hennar Önnu. Eftir að hafa gengið einn stóran hring til að sjá hvað var í boði, þá enduðum við á að kaupa slatta af ávöxtum, og þar með þurfti ég ekki lengur að fara í stóru matarbúðina, amk ekki í dag.
Við komum heim aftur í hádeginu, og eftir hádegismat (leyfar!) þá lögðum við okkur og það reyndist ofurlúr! Rúmum þremur tímum seinna rumskuðum við okkur, og þá löngu orðin allt of sein í afmælis/innflutningsveislu hjá Berglindi og Styrmi. Við fengum samt leyfi til að mæta, og mættum næstum síðustu gestunum á útleið þegar við loksins komum. En það var gott að fá veislumat, gaman að skoða nýja húsið og spjalla saman.
Um kvöldmatarleytið héldum við heim, borðuðum (leyfar!) og svo fór Bjarki í rúmið. Ég horfði loksins á eina netflyksumynd sem hefur legið uppi á sjónvarpi í örugglega þrjá mánuði, ef ekki lengur. Hún var ágæt, ljúf og róleg með fullt af tónlist. Nú er klukkan hins vegar farin að nálgast miðnætti, vinnuvika framundan og best að draga sig í hlé.