Hefði-átt-að-vera afmælisdagur
Í dag eru tvö ár liðin frá áætluðum fæðingardegi tvíburanna Bjarka og Reynis. Við gerðum ekkert sérstakt til að halda upp á daginn, ef frá er skilið að ég tók nokkrar myndir af Bjarka. Heima á Íslandi var Eymundur afi jarðsunginn og gott ef það byrjaði ekki að snjóa þar undir kvöldið. Anna mun hafa kallað á alla til að koma og sjá “eitthvað sniðugt” út um gluggann. 🙂
Af Bjarka er það helst að frétta að hann er að færast af gríska skeiðinu yfir á rómverska skeiðið, eins og gamli leikskólakennarinn hennar Önnu orðaði það. Með því á ég við að hann er ekki lengur bara að skoða heiminn og reyna að skilja hvernig hann virkar, heldur vill hann núna sigra heiminn, og gera hlutina sjálfur. Í morgun heimtaði Bjarki t.d. í fyrsta sinn að hella sjálfur úr seríós-pakkanum í skálina, eða amk að við myndum hjálpast að við það… 🙂
“Myndir!” Bjarki vill ekki láta taka af sér myndir þessa dagana,
heldur vill hann sjálfur fá myndavélina til að “taka myndir”.
Kominn á leikskólann og byrjaður að leira.
Hann á að vera með plástur fyrir góða auganu
í tvo tíma á dag, í þeirri von að lata augað styrkist.
Dagurinn hjá okkur leið nokkuð tíðindalaust, ég rembdist á skrifstofunni, en afvegaleiddist hvað eftir annað. Ég var síðan sein að leggja af stað og ná í Bjarka svo ég hafði ekki tíma til að stoppa stutt heima og setja upp matinn. Kvöldmaturinn var því samansull af bökuðum baunum, edameme baunum, grænum baunum og gulum baunum (maís) ásamt því að ég gaukaði að honum hentusmjörssamloku og tómötum, með pluot í eftirrétt. Finnur hefði örugglega flust að heiman ef ég hefði reynt að bjóða honum upp á annað eins!! 🙂