Ferðasagan
2009-10-13Uncategorized Standard
Þá erum við Anna komin heim, eins og fram hefur komið. Anna stóð sig eins og hetja á leiðinni og í raun er að ferðast með henni orðið eins og að ferðast með fullorðinni manneskju — sem finnst rosalega gaman af teiknimyndum. 🙂
Ferðin gekk vel; Steinunn keyrði okkur á völlinn með stoppi í Bónus rétt áður en komið var í flugstöðina. Þar keyptum við samlokur og ég freistaðist til að kaupa hangikjöt fyrir jólamatinn og troða lærinu í ferðatöskuna. 🙂
Það var svo ekkert að gera við innritunina (engin biðröð) og ekkert að gera í öryggistékkinu, líkt og við upphaf ferðar (í San Jose). Við röltum því bara inn í rólegheitum og höfðum nógan tíma.
Flugið var rúmar 7 klst. til Seattle og svo tæpir (?) tveir til San Jose; kvikmyndir í fyrri vélinni og sofið í þeirri seinni. Vélarnar voru svo mun betur nýttar á bakaleiðinni, þannig að ekki fengum við heila röð út af fyrir okkur.
Tollararnir settu ekki út á lærið, vildu ekki einu sinni sjá það. “Lamb frá Íslandi? Já, farðu bara í gegn…”.
Það voru svo stuttir en góðir fagnaðarfundir að sjá Hrefnu (og Bjarka sofandi) en svo hrundum við í rúmið.
Bjarki varð þvílíkt kátur um morguninn þegar hann vaknaði og Anna tók hann upp úr rimlarúminu (!) og setti í hjónarúmið. Hann lá og flissaði og lék sér við okkur, kátur og glaður að endurheimta pabba sinn og Önnu leikfélaga.
Við þökkum öllum kærlega fyrir samveruna og gestrisnina heima á Íslandi á þessum stutta tíma sem við höfðum! Tilefni ferðarinnar var náttúrulega ekki ánægjulegt en dvölin var góð samt sem áður, eins og alltaf.