Anna í íslenskum skóla
2009-10-08Uncategorized Standard
Amma Anna er sérkennari og kom því til leiðar að Anna Sólrún fengi að sitja einn dag í skólanum hennar (Hofstaðaskóla í Garðabæ). Hún jafnframt benti á að það væri hús til sölu í nágrenni við sig… en engin pressa… 🙂
Anna Sólrún var því vakin þremur tímum fyrr en venjulega til að fara með afa og ömmu og dagurinn gekk víst ljómandi vel. Henni líkaði fantavel en að venju var fátt um svör þegar ég reyndi að toga upp úr henni hvernig dagurinn hefði verið. Hvað var skemmtilegast? “Allt!”. Var ekkert leiðinlegt: “nei”. Hvað gerðuð þið: “ég man það ekki”. Hvað hét stelpan sem þú sast með: “uh… ég man það ekki”. Las kennarinn sögu? “Já”. Hvað var sagan um? “öööhh… Ég man það ekki”. Viltu fara aftur á morgun? “Já!”. En það er því miður ekki í boði.
Skólanum lauk kl. 2 og þá náði ég í hana og við fórum til ömmu Ásdísar í vesturbæinn og leiddum ömmu í allan sannleikann um nýju útgáfuna af Picasa 3.5. Nú er ég búinn að boða trúna (lesist: face recognition) allt frá því að ég kom til landsins. Þessi útgáfa fer í gegnum allt safnið þitt og finnur andlit sem þú getur tengt við nöfn og þar með flokkar hún myndasafnið fyrir þig eftir nöfnum. Ótrúúúúlega sniðugt! 🙂 Jafnframt vafði Anna ömmu sinni um fingur sér (og frændum sínum) og stjórnaði sjónvarpsdagskránni með harðri hendi. 🙂
Hvað um það. Hér eru svo myndir af Önnu í skólanum í dag…
Anna Sólrún með ömmu sinni (Önnu) í skólanum.
Anna Sólrún kát í salnum þar sem allir komu saman og tóku nokkur lög.
Mín fylgdist með af áhuga.
Einn af dagskrárliðunum var tölvukennsla. Þetta er
tölvunotkunarstelling sem faðir hennar hefur
fullkomnað gegnum árin.
Svo var boðið upp á fiskibollur í hádeginu.
Góður dagur. Nóg að gera, enda sofnaði mín óvenju snemma eftir langan dag. 🙂