Á skrifstofunni
2009-10-08Uncategorized Standard
Ég sit við skrifborðið mitt og er að gera allt sem ég get til að þurfa ekki að fara að vinna. Sem er slæmt, því ég þarf að vinna eins og hundur ef ég á að klára fyrirj jól. Jamm, 4. desember er lokadagurinn til að skila inn ritgerðinni, og ég á eftir að ganga frá mörgum lausum endum. Það er fræðilegur möguleiki að þetta náist, gallinn er bara sá að ég þarf að klára að skrifa, svo að fá þrjár manneskjur til að lesa yfir, laga það sem laga þarf, fá aðra yfirlesningu og svo framvegis þar til ég fæ þrjár undirskriftir.
Ef þetta á að ganga, þá held ég því miður að við þurfum að planta Önnu í fulla eftirskóla-gæslu í október og nóvember og ég veit ekki hversu kát hún verður með það. Hún er annars sem stendur ennþá á Íslandi, og gott ef hún fór ekki í skólann (Hofstaðarskóla) í morgun með ömmu sinni, og lét vel af fyrsta bekk.
Á meðan þá erum við Bjarki að mæðgnast. Hann hefur fengið að dúsa helst til lengi á leikskólanum, (það tekur mig 20-30 mínútur að keyra á milli leikskólans og skrifstofunnar), en hann virðist ekki hafa neitt sérstaklega á móti því. Það virðist sem að jaxlarnir séu ekki að angra hann mjög mikið núna (tveir komnir í gegn, tveir eftir) en hins vegar er hann orðinn afskaplega andlega viðkvæmur ef hann er svangur.
Þannig hefur allt gengið á afturfótunum þegar heim er komið af skólanum þar til að ég kem ofan í hann mat og þá breytist hann í ljúflingsbarn. Morgnarnir hafa líka ýmist verið ljúfir sem lamb eða reiðir sem drekar eftir því hversu svangur hann er, og hvort að ég asnist til að gera eitthvað sem hann vill ekki – sem í morgun var að klæða hann í sokka og buxur. Rómverski riddarinn er greinilega að brjótast um í brjósti hans sem þýðir að nú þarf ég heldur betur að fara að æfa þolinmæðisvöðvann…
Ég hef talað um þetta við leikskólakennarana, og nú á víst að gera átak í því að passa upp á að börnin borði vel og hætti ekki þegar fyrsta barnið þykist vera búið. Gaman að þessu! 🙂