Silkiormar
Þessa helgi höfum við séð um silkiorma frá leikskólabekknum hennar Önnu. Á föstudaginn tókum við sum sé 19 orma í kassa heim úr leikskólanum, ásamt poka af laufblöðum. Það hefur farið lítið fyrir ormunum, enda okkar hlutverk einfaldlega að leggja laufblöð ofan á þá þegar á vantar, og koma í veg fyrir að Anna eða Bjarki myndu kremja úr þeim líftóruna. Nú vantar bara fimmtán mínútur í að mánudagurinn byrji, og það lítur út fyrir að allt sé enn í góðu lagi.
Þetta er annars búin að vera önnum kafin helgi. Í gær fórum við í afmælisteiti til Todds, í morgun heimsóttum við Imeldu og fjölskyldu, og nú síðdegis fengum við Lottu, Úlfar og börn í heimsókn og kvöldmat (fiskisúpu). Heima á Íslandi er líka allt búið að vera gjörsamlega á trilljón, að því er virðist, við veisluhöld. Fyrst skal nefna að mamma átti afmæli í gær, laugardag. Þá útskrifuðust líka Steinunn systir Finns, Dagrún frænka mín, og Hjörtur sonur Ágústar hennar Huldu. Í dag skírðu svo Arnar móðurbróðir og Magnea hina spánýju Lóu Bryndísi sína, og héldu upp á afmæli sonarins í leiðinni. Ég er örugglega að gleyma einhverju, og sendi því bara út almennar hamingjuóskir með allt til hvers sem vill taka þær til sín! 🙂