Viðarmyndir
Hef fengir nokkrar beiðnir um myndir af viðar-áburðar-verkefninu okkar og skelli þeim hér með inn. Við klikkuðum alveg á því að taka myndir af húsgögnunum áður en við byrjuðum, en við eigum ennþá von á tveimur stólum, svo að það er ekki öll von úti enn. Það skal tekið fram að viðurinn skiptir um lit eftir því hvernig ljós skín á hann svo að það er nokkurn veginn vonlaust að ná mynd af “hinum eina sanna” lit. Fyrsta myndin er tekin við ljósaperuljós, en hinar nota bara ljósið sem kemur inn um skúrgluggana. Svo í lokin er ein af Bjarka frá því í morgun.
Herra Bjarki. Það er orðið erfitt að taka af honum myndir því hann
kemur alltaf æðandi í áttina að myndavélinni! Hér er hann
að bardúsa eitthvað við gluggann og stoppaði í tvær sekúndur.
Annars hitti ég einn leiðbeinandann minn í morgun til að ræða nýjasta kaflann sem ég sendi honum í vikunni. Það vill svo til að leiðbeinandinn sá er nýbyrjarður að fá kafla frá einum hópfélaganum sem er frá landi þar sem tungumálið er óskilt ensku, og leiðbeinandinn las víst minn kafla á eftir kaflanum frá honum. Ég fékk að vita það að leiðbeinandanum fannst kaflinn minn mjög auðlesinn og lítið við málfarið að athuga (hrós!!!) svo að í framtíðinni held ég að ég þurfi að stilla saman strengi með hópfélaga mínum svo við getum aftur skilað af okkur kafla á sama tíma. 😉
Ég fór annars að pæla svolítið í þessu með auðlæsina núna áðan. Ég hef heyrt það aftur og aftur að til að læra að skrifa þá þurfi maður bara að skrifa nógu andsk… mikið, og þá velti ég fyrir mér hvort að þetta blogg mitt hafi aukið almenna skriffærni mína? Þá má spyrja: Hefur fólk almennt tekið eftir því að hugsunum og hugmyndum sé betur komið á framfæri nú á síðari árum en í upphafi bloggs? Það eina sem ég hef tekið eftir er að ég reyni nú meira en áður að halda málsgreinum sem litlum sjálfstæðum einingum, en þess fyrir utan veit ég ekki – enda verkfræðingur en ekki rithöfundur! 🙂