Kampusferð
Ég fór inn á kampus í dag eftir amk tveggja vikna “hlé”. Fór á hinn venjubundna hópfund (ræddum “póster” sem ein ætlar að sýna) og svo fékk ég tæpa fjóra kafla til baka frá prófessornum. Ég segi “tæpa” því að einn kaflinn var ekki fullkláraður þegar ég sendi hann til hans um daginn (sá er næstum tilbúinn núna samt), og hann las bara þrjár blaðsíður af einum kaflanum áður en hann fékk nóg af illa orðuðum setningum og sendi kaflann aftur að mestu ólesinn til móðurhúsanna.
En sum sé, ég er með þrjá kafla í “decent” (sæmilegu) ástandi, og það er betra en ekkert. Ef ég næ að laga orðalagið á hafnaða kaflanum þá á ég eftir að skrifa fyrsta kaflann, einn “efnis”kafla í viðbót (er ekki alveg búin að ákveða hvað verður í honum!), einn lokakafla, og svo 3-4 “appendixa” sem verða að mestu töflur/myndir fyrir utan einn. Það er því nóg eftir og alls ekki útséð með að ég nái þessu fyrir haustið, sérstaklega ef ég miða við hvað skriftir taka mig langan tíma. Það skal viðurkennast að ég fékk nett panikk-kast þegar það rann upp fyrir mér að ég gæti mögulega þurft að bíða fram að jólum með að klára formlega… En á móti kemur að það er svo sem ekki eins og ég sé komin með atvinnu eftir útskrift, svo nákvæm tímasetning ætti ekki að skipta svo miklu máli… vona ég.
Eftir að hafa farið yfir kafla-kommentin þá fór ég og náði í hjólið hans Finns úr viðgerð svo að nú er honum ekkert að vanbúnaði að fara aftur að hjóla í vinnuna eftir nokkurra mánaða frí á meðan hér var sem “kaldast” og “blautast”. Enda ekki annað hægt nú þegar það er spáð 24-26 stiga hita næstu tíu dagana!