Ísland birtist í Google Maps!
2009-05-19Uncategorized Standard
Dagurinn í dag var góður. Þetta var svo sem ósköp venjulegur dagur að öllu leyti nema hvað í lok vinnudags þá sá ég loksins afrakstur erfiðis míns með að koma Íslandi á kortið í Google Maps. Ég held ég hafi minnst á þetta áður á blogginu, en til að gera langa sögu stutta þá fann ég hóp innan Google sem var að búa til vefsíðukerfi sem bauð notendum upp á að teikna götukort ofan á gervihnattamyndir sem Google á. Ég nauðaði í þeim að opna fyrir Ísland og lék mér að því vikum saman um kvöld og helgar að slá inn bæjarfélög og teikna inn götur og fyrirtæki sem ég þekkti. Ég dundaði mér við þetta einn fyrst um sinn en fékk svo góða menn og konur til liðs við mig (þmt. Hrefnu sem er enn listuð sem Top Contributor á forsíðunni síðast þegar ég skoðaði) enda ekki nokkur leið fyrir einn mann að slá þetta allt inn.
Nú er svo komið að þetta var að fara í loftið í dag og hægt að sjá afraksturinn hér:
Eitt af því skemmtilega við þetta er að hægt er að skoða myndir, vídeó og Wikipedia greinar um ýmsa staði á kortinu. Svo má ekki gleyma því að hver sem er getur notað kortið sem grunn til að birta upplýsingar (svokallað Google Mashup). Þetta var nýkomið í loftið þegar einhver tók sig til og setti upp kort yfir nokkra staði á höfuðborgarsvæðinu sem bjóða upp á glútenfrían mat. 🙂 Og einhver annar setti upp kort yfir hlaupaleiðina í einhverju maraþonhlaupi sem virðist vera í uppsiglingu á höfuðborgarsvæðinu (svona til að hlaupa af sér allan glútenfría matinn). 🙂
Möguleikarnir eru ansi skemmtilegir. Ég sé til dæmis fyrir mér að fasteignasalar gætu sett upp kort yfir þær eignir sem þeir eru með í sölu (sbr. Housing Maps sem birta leiguíbúðir af Craigslist smáauglýsingunum). Háskóli Íslands gæti sett upp kort sem sýnir alla frægustu staðina úr Íslendingasögunum með söguskýringum og myndum. Hér í Bandaríkjunum hefur þetta verið notað til að sýna útbreiðslu skógarelda og svínaflensu. Á Indlandi var þetta notað til að sýna hvaða kjörstaði fólk ætti að nota. Og svona mætti lengi telja.
Það er ýmislegt sem má betur fara, að sjálfsögðu. Það vantar til dæmis gervihnattamyndir af mörgum bæjarfélögum. Svo er örugglega nokkuð um villur (hef þegar fundið nokkrar) og akstursleiðbeiningarnar virka ekki sem skyldi ennþá. Það besta við þetta er þó að ef stofnanir eða fyrirtæki eiga gervihnattamyndir þá tekur Google við slíku og ef notendur finna villur eða vilja bæta inn gögnum þá er það opið öllum (sem hafa Google reikning/Gmail tölvupóstfang), sjá Google Map Maker.