Himnarnir eru að hrynja! Það er allt í himnalagi! Þeir eru að hrynja segi ég!!!
2009-05-22Uncategorized Standard
Ég fékk þá flugu í hausinn í kvöld að reyna að átta mig á ástandinu heima á Íslandi með því að nota eingöngu gögn sem eru aðgengileg á netinu. Alveg sjálfur! Án þess að hafa hagfræðing eða sálfræðing mér við hlið til að túlka tölurnar. Ég veit ekki hvort ég gerði þetta meira til að vita hvort þetta væri hægt (er nóg gegnsæi?) eða hvort ég var að reyna að sannfæra mig um hvað ég hef lítið vit á þessu. Sennilega sitt lítið af hvoru.
Helst langaði mig til að bera saman hráar tölur um t.d. atvinnulífið frá helstu opinberu tölfræði-uppsprettum landsins, eins og Seðlabanka, Hagstofu og Ríkisskattstjóra, svo dæmis sé tekið. Meiningin var að reyna að átta mig á hversu stór bólan varð og hversu mikið bakslag þetta væri í raun og veru. 1 ár? 5 ár? 10 ár? 20 ár?
Ég var með stór áform um að setja þetta upp í töflur og gröf, dást að hæfileikum mínum í notkun á töflureiknum og framsetningu á vefnum 😉 en rak mig fljótt á það að fólki er allavega ekki gert _auðvelt_ að nálgast þessi gögn á hráu formi fyrir svona langt tímabil (eða að ég er svo lélegur að leita). Annað hvort byrjar mælingatímabilið (eða bara upplýsingagjöfin?) eftir að bólan var byrjuð eða að tímabilið endar löngu áður en hún springur. Eða þá að gögnin eru falin innan í einhverjum “þykkum” rafrænum skrautbæklingi. Hrmpf! Dundverkefnið mitt breyttist fljótt í tímasóun…
Kannski geri ég aðra tilraun síðar þegar ég er minna dasaður eftir langa viku. 🙂