Afsnuðun
Í gærmorgun fann ég ekki bláa snuðið hans Bjarka fyrir morgunlúrinn og fékk þá flugu í höfuðið að þar með væri kominn tími á að hann hætti með snuð. Hann sofnaði eftir 10 mínútna hörð mótmæli, og í gærkvöldi vældi hann í 20 mínútur áður en hann lognaðist út af. Sem betur fer sofnaði hann áður en Tina vinkona okkar mætti í kvöldmat!
Í morgun vaknaði Bjarki hins vegar um fimm og tókst ekki að sofna aftur. Finnur var einn inni hjá honum, og kom og sótti mig til Önnu um hálf-sjö leytið, áður en hann hrundi sjálfur í rúmið (hænu-morgun-blundur). Sem betur fer svaf Bjarki í rúma tvo tíma fyrir hádegi áður en hann fór á leikskólann. Í kvöld mótmælti hann svo harðlega í 2 mínútur og sofnaði skömmu síðar.
Eina vandamálið er að ég veit ekki ennþá hvað varð um bláa snuðið, og einhvern daginn mun það finnast. Ég vona bara að Bjarki verði ekki viðstaddur!!
p.s. Í dag átti Finnur 2ja ára vinnuafmæli hjá Gúgul, og fór í því tilefni út að borða í hádeginu með gömlu samstarfsfélögunum sem fluttust frá GreenBorder yfir til Gúgul.