Þroskamat
Ég fór með Bjarka í enn eitt þroskamatið í morgun. Þetta var þriðja heimsóknin á “þroskadeildina” á spítalanum og sú allra lengsta hingað til, einn og hálfur tími. Heimsóknin byrjaði á því að Bjarki var prófaður í bak og fyrir af sálfræðingi sem vissi ekki sjúkrasöguna hans. Síðan var stutt læknisskoðun (framkvæmd af heldri-nema) og svo kom aðallæknirinn síðast og spjallaði aðeins.
Niðurstaðan var sú að Bjarki er sem fyrr örlítið fyrir neðan “meðaltal” í þroska ef tekið er tillit til hvenær hann hefði átt að fæðast, og enn lengra fyrir neðan meðaltal ef það er ekki leiðrétt fyrir aldur. Hann er samt “innan eðlilegra marka” sama hvort leiðrétt er eður ei. Helst þvælist fyrir honum að hlýða munnlegum beiðnum, eins og “réttu mér þennan hlut”, eða “bentu á þetta”. Hann gerir bara nákvæmlega það sem hann vill (eins og, ahemm, sumir aðrir í fjölskyldunni) og fyrir það fær maður fá stig á þroskaprófum.
Við gengum því út með uppáskrift um að láta meta hvort Bjarki þurfi talþjálfun, sem á að gerast eftir að það er búið að prófa heyrnina hans aftur. Við erum samt ekki mikið að stressa okkur á þessu, því að hann hefur verið að kljást við eyrnabólgur í allan vetur (vonum að það lagist með sumrinu, annars rör), hann er karlkyns, tvítyngdur og fyrirburi í ofanálag.
Ég verð annars að viðurkenna svoldið pirr eftir heimsókn dagsins. Þegar Bjarki verður tveggja ára þá hættir heilsukerfið að taka tillit til að hann hafi fæðst of snemma. Í dag vildi sálfræðingurinn meina að þar sem hann er þegar nálægt “neðri mörkunum” fyrir “eðlilegan þroska” ef það er ekki leiðrétt fyrir aldur, þá geti hann dottið niður fyrir mörkin ef hann fær ekki allan mögulegan stuðning.
Þar með fór ég að velta því fyrir mér af hverju kerfið gerir ráð fyrir að fyrirburar eigi að vera búnir að “ná” jafnöldrum sínum við tveggja ára aldur. Til að svo ætti að vera, þá þarf fyrirburinn að þroskast hraðar heldur en “eðlilegt barn” fram til tveggja ára aldurs, sem er undarlegt því fyrirburinn hefur ætíð átt það erfiðara heldur en fullburða barn.
Frá okkar sjónarhóli hefur Bjarki verið að þroskast meira og minna á eðlilegum hraða. Ef það er rétt, þá þýðir það að hann nær aldrei jafnöldrum sínum alveg, verður alltaf 4-5 mánuðum á eftir, en það á eftir að skipta minna máli eftir því sem hann eldist. Það er hins vegar svolítið basl að þurfa að díla við kerfi sem er ekki á sömu skoðun.