Sullumbull
Það stefndi í alvarlegan bleiu-skort í morgun svo það var ekki um annað að ræða en CostCo-ferð. Þar eru miklir sumardagar og endalaus garðhúsgögn, plöntur og dót til sýnis. Ég var næstum fallin fyrir garðstól í rómverskum stíl (langur legustóll) en stóðst mátið. Hins vegar féll ég kylliflöt fyrir “vatnsborði” fyrir krakkana, enda búin að leita lengi að sulludóti og fátt fundið – líklega því ég byrja alltaf að leita á sumrin og þá er allt löngu uppselt.
Hvað um það. Þegar heim var komið settum við græjuna saman og skelltum út í garð og undir sólhlífina sem við tókum í gagnið um daginn. Þar er þegar komin rennibraut sem við erfðum frá nágrönnunum um daginn. Við erum því orðin nokkuð vel búin fyrir garðleiki sem hefur komið sér vel núna þegar Bjarki er búinn að fá alveg nóg af dótinu í stofunni og leiðist eftir að stóra systir hverfur á morgnana. Okkur til undrunar tók Bjarki strax upp á því að klifra upp og niður stigana á rennibrautarhúsinu, og núna er hann búinn að læra að renna sér niður líka.
Eftir mikið sull þá héldum við til fjölskyldu Lulu, þar sem krakkarnir sulluðu ennþá meira í (heldur kaldri) sundlaug. Bjarki hélt áfram að æfa sig að ganga og Finnur grillaði svínarif. Deginum lauk með Wii-keiluspili, og núna erum við hjónakornin að taka því rólega til að safna kröftum fyrir nýja viku.