Rigning
Það rigndi í dag og það á víst að rigna eitthvað meira næstu daga. Ætli þetta sé ekki síðasti rigningaskúrinn í vor, og svo þurfum við líklega að bíða fram í október eða nóvember eftir næsta skúr. Maður gleymir því yfirleitt að ef maður vökvar ekki hérna úti, þá skrælnar allt nema stóru tréin. Svona er auðvelt að gabba hugann og láta mann halda að maður búi á “gróðursællegum” stað.
Ég er annars nokkuð kát. Held nefnilega að mér hafi loksins loksins tekist að finna leið út úr vandamáli með verkefnið mitt sem er búið að plaga mig í mörg ár. Gott ef ég eyddi ekki öllu síðasta sumri í að þreyfa mig um frumskóg möguleikanna og endaði loksins með lausn sem virkaði “nógu vel” til að ég gæti varið, en samt eiginlega ekki, því það var mikið púað á hana í vörninni.
En sem sagt, ég réðst enn og aftur á vandamálið í síðustu viku og þræddi mig aftur um frumskóg möguleikanna þangað til ég var komin á sama stað og í fyrra. Þá tók ég eitt skref aftur á bak og beygði svo til hægri og er núna komin með eithvað sem virkar í alvörunni nógu vel til að ég held að ég komist upp með að skila því inn. Jibbíí! 🙂
Lausnin er samt svo pirrandi einföld að ég pirra mig á að hafa ekki asnast til að prófa þetta fyrr, en svona er þetta – allt er augljóst og einfalt í baksýnisspeglinum. Reyndar er ég bara búin að keyra þetta á eina tilraun, svo kannski er ég að fagna of snemma, en þetta er amk skömminni skárra en ekki neitt. Næst þarf ég “bara” að finna út villumörk (ugh, ég hata villumörk) og svo ákveða hvernig ég ætla að skrifa þetta upp. Markmiðið er að vera búin með kaflann sem þetta tilheyrir í lok mánaðarins… hehe…