Páll og Vigdís
2009-04-28Uncategorized Standard
Ég datt inn á þáttinn Krossgötur áðan þar sem Páll Skúlason, fyrrum rektor HÍ, og Vigdís Finnbogadóttir komu fram. Þetta er nokkurra daga gamalt efni, sem ég hafði ekki gefið mér tíma til að hlusta á fyrr en núna en fannst athyglisvert, til dæmis kafli þegar ca. 14 mínútur voru liðnar af viðtalinu (13:48-20:00).
Þau komu bæði mjög vel frá enda bráðgáfuð og mælsk bæði tvö og ekki laust við að maður sakni Vigdísar nokkuð af forsetastóli.
Umræðuefnið í þættinum var skortur á gagnrýnni umræðu á Íslandi almennt í gegnum tíðina og var komið víða við. Þetta samtal vakti áhuga minn þar sem ég hef pínulítið verið að velta þessu fyrir mér gegnum árin sem og viðmóti fólks við ábendingum og gagnrýni almennt. Hef tekið eftir því að jafnvel saklaus gagnrýni snertir stundum viðkvæma strengi hjá fólki og stundum er bara lokað á umræðuna. Svo var einnig rætt um það í þættinum að fjölskylduboð leysist upp í skotgrafarhernað þar sem menn eru á öndverðum meiði. Hef ekki upplifað það að ég muni en kemur mér kannski ekki á óvart. 🙂
En vonandi ber umræðan í kjölfar hrunsins keim af meiri virðingu og umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra og minna um það að fólk þurfi að hika við að tjá skoðanir sínar af ótta við að lenda upp á kant t.d. við stjórnmálaöflin.