Miðar heim
Í dag keypti ég miða til Íslands í sumar. Við ætlum að dvelja á landinu í heilar fimm vikur: lendum átjánda júlí og förum til baka tuttugasta-og-annan ágúst. Á leiðinni þangað fjúgum við í gegnum Nýju Jórvík, en á leiðinni til baka notfærum við okkur glænýtt flug til Seattle (Sívætlu?). Við tökum að sjálfsögðu við boðum um hitting, enda greinilega aldrei of snemmt að byrja að skipuleggja!! 🙂
Það var sem fyrr áraun að finna miða á skikkanlegu verði ($1050 per mann, plús einhver töskugjöld) sem kröfðust ekki næturgistingar í Nýju Jórvík eða Boston (Bossabæ?). Ég var næstum búin að gefast upp og var við það að panta flug í gegnum Minneapolis með hinum og þessum flugfélögum í gegnum hinar og þessar vefsíður – bara til að geta hætt að tæta hár mitt. En fyrir rælni rambaði ég inn á Priceline síðuna sem fann flug alla leið á góðu verði. Ég fór inn á nokkrar aðrar leitarsíður í viðbót, en þær voru allar með hundleiðinlegu viðmóti svo að í augnablikinu er Priceline, og þeirra Star Trek hetja, mín uppáhalds flugmiða-vefsíða. Sjáum hvað það helst lengi… 🙂