Út um hvippinn
Í morgun þurfti Anna að vera mætt á leikskólann klukkan 8 svo að hún gæti farið í hópferð til Hidden Villa að skoða dýr og matjurtargarða. Það þýddi að ég var komin óvenju snemma á fætur sem setti alla morgunrútínuna úr skorðum. Það hjálpaði ekki að ég fór allt of seint að sofa í gærkvöldi (festist á Amazon, grrr…) svo að í staðinn fyrir að vera skemmtileg mamma sem les bækur og syngur lög og tekur fram fingramálningu, þá var ég skemmtileg mamma sem spilaði tónlistarmyndbönd fyrir Bjarka af YouTube. Honum fannst það líklega ekkert verra…
Að vanda fór ég upp í skóla til að hlusta á rannsóknar-hóps-fyrirlestur í hádeginu. Í dag hélt nýr strákur sinn fyrsta fyrirlestur fyrir hópinn, og ég gafst upp eftir 5 mínútur og fór að skoða netið á gSímanum í staðinn. Það getur vel verið að hann sé bráðgáfaður, en það er erfitt og frústerandi að sitja undir fyrirlestrum sem eru ekkert nema jöfnur og skilgreiningar, ef fyrirlesarinn gerir ekkert nema lesa jöfnurnar upp án þess að setja þær í neitt samhengi. Þá get ég alveg eins litið upp endrum og eins og lesið glæruna og sleppt því að hlusta.
Það hjálpaði ekki að greyið talar slæma ensku, og virðist skilja hana enn verr. Það verður fróðlegt að vita hvort hann verði formlega tekinn inn í hópinn eða ekki – aðallega vegna þess að prófessorinn er með mikla reynslu í að velja nemendur og mér finnst forvitnilegt að vita hvort hann túlki frekar la-la frammistöðu sem samskiptavandamál sem má laga, eða sem merki um lítinn skilning á því sem hann var að tala um.
Þrátt fyrir hausverk tókst mér að vinna örlítið þegar ég kom heim, með áherslu á “örlítið”. Þetta er dagur númer tvö sem ég fæ hausverk, sem er afskaplega óvenjulegt. Vona að það sé bara uppsafnað svefnleysi sem er að plaga mig!