Tannsi og kvöldverður
Í dag fór ég til tannlæknis í fyrsta sinn í u.þ.b. ár og gekk út með afskaplega hreinar tennur. Að vanda komst upp um hvað ég er léleg að nota tannþráð, en á móti kemur að nú nota ég rafmagnstannbursta, sem bjargar því sem bjargað verður. Þar sem þetta er nýr tannlæknir (minn þriðji hér í CA) þá spurði ég hana hvað ég ætti að gera við endajaxlana mína. Enginn þeirra er kominn upp, enda liggja þeir allir á ská, og hinir tveir læknarnir vildu láta taka þá alla.
Hún sagði að hættan væri að það myndi myndast graftarkýli kringum þá, og að þá þyrfti alveg pottþétt að taka þá. Reynslan væri hins vegar sú að yngra fólk nái sér fyrr af tannskurðaðgerðum, og að beinin væru mýkri í yngra fólki, og því ýta tannlæknar á að svona endajaxlar séu teknir ef maður er á þrítugsaldri (tuttugu-og-eitthvað), jafnvel þó það sé í raun ekkert að. Hún nefndi 34 ára aldur sem dæmi um að maður sé ekki lengur ungur, mjúkbeinóttur og fljótur að ná sér, og sagði að ég yrði bara að ákveða sjálf hvað ég vildi gera.
Í kvöld fengum við svo ný-nágranna okkar, þau Svövu Maríu og Nicolas hennar, í mat. Svava hefur búið hérna úti í rúm sjö ár og er fastagestur í saumaklúbbnum. Lengst af hefur hún hins vegar átt heima uppi í borg (45 mín akstur), en þau hjónakornin fluttu til Mountain View núna nýlega og gætu líklega hjólað til okkar ef þau vildu! Það var voða gaman að hitta þau, og Anna Sólrún lét okkur vita að þau ættu að koma aftur í heimsókn á “heimadegi” (ekki virkum degi).
Svo bara eitt í lokin: Happy 11th Birthday Anthony!! 🙂