Sumarið er handan við hornið
Nú er sumarið á næsta leyti, og því ekki seinna vænna en að fata upp liðið. Ég dró því Önnu með mér í morgun í ofur-verslunarferð. Sem fyrr lá leiðin í “outlet”-kringluna ógurlega: Great Mall í Milpetas, og við vorum mættar fyrir hádegi. “Outlet” þýðir að það er yfirleitt búið að fjarlægja fötin úr “alvöru” búðunum (of lítil sala, gert pláss fyrir nýjar vörur…), eða að það séu föt frá því í fyrra – til dæmis sé ég oft jólakjólana frá árinu áður í outlet-krakkabúðunum. Þar með er allt alltaf á útsölu – og stundum er útsala á útsölunni!
Fyrsta búðin var OshKosh, sem er orðin uppáhaldsbúðin mín fyrir Önnu eftir að hún óx upp úr Carters. Hún er greinilega á milli stærða, því sum fötin voru númer 6 en önnur 7. Næst lá leiðin í Gap, en svo skemmtilega vildi til að ég fann 30% afsláttarmiða á netinu (gilti líka í Banana Republic) áður en ég lagði af stað því þetta var víst einhver ofur-afsláttarhelgi. Áður en yfir lauk höfðum við líka heimsótt Banana Republic, Carters og StrideRite – svo ekki sé minnst á bakarí til að hlaða batteríin. Þar með getur einhver markaðssérfræðingurinn flokkað mig í flokk – því í þessum búðum verslar þessi fjölskylda!
Eyðslu (uh, ég meina “aðstoð við að endurlífga fjárhagskerfið”) dagsins var þó ekki lokið, því núna áðan vorum við að kaupa (hræódýra) flugmiða til Oregon í maí. Þar dvelja nú Elsa, Þráinn og börn – sem eru einmitt að koma í heimsókn til okkar eftir viku – og við ætlum að heimsækja þau til baka, enda aldrei komið til Oregon. Nú ætla ég að fara að panta bílaleigubíl, því ég vil ekki lenda í sama veseni og síðast þegar ég beið fram (og framyfir) síðustu stundu!