Stofu-svitn
Enn ein vikan byrjuð, og mánuðurinn þegar hálfnaður. Helsta fréttin var að Bjarki tók aftur þrjú skref í dag, og síðan ekki söguna meir. Hann er samt vonandi að færa sig aðeins upp á gönguskaptið. Anna átti víst góðan dag á leikskólanum fyrir utan að hún var víst endalaust að hamast og sífellt að meiða sig. Ég velti því fyrir mér hvort hún sé á vaxtar/folalda-skeiði?
Í kvöld ýtti ég stofuborðinu ofan af Wii Fit brettinu og hóf að fikra mig í gegnum æfingarnar. Ég er nú ekki búin að nota græjuna mikið en á þessum nokkru skiptum þá er ég búin að aflæsa nógu mörgum æfingum/valmöguleikum til að það taki tæpa tvo tíma að fara í gegnum þær allar. Ég hef haft það fyrir “vana” að fara í gegnum allar jóga og styrktaræfingarnar, og svo tek ég létt eróbikk og stofuskokk í lokin. Ætli það komi að því að æfingarnar verði svo langar að þetta taki heila eilífð, eða ætli leikurinn “frystist” á einhverjum tímapunkti þegar maður er búinn að opna allt? Veit það einhver?
Það skal tekið fram að ég er ekki að sprikla á brettinu til að léttast, heldur bara til að auka styrk og úthald. Helst vona ég að þetta hjálpi við að halda höndunum í horfinu, því að ég er ennþá og ávallt að berjast við auma/sára handleggi við tölvuvinnu. Ég er samt nokkuð sátt við það að forritið aldursgreini mig yfirleitt sem 27-32 ára, sem þýðir víst að ég er ekki í hræðilegu formi. Allir þessir jóga og pilates tímar sem ég fór í í “den” hafa greinilega skilað einhverju… 🙂
Ég get samt ekki neitað því að það böggar mig svolítið andlega að eyða heilu kvöldi í Wii Fittinu. Aðrir kvöld-valkostir eru hins vegar kannski ekkert meira spennandi: að hanga á netinu í fartölvunni, horfa á sjónvarpið, lesa bók, stunda myndvinnslu eða spila leik. Ætli það sem vanti ekki er að maður er svo “einn” að sprikla, á meðan ég myndi horfa á sjónvarpið með Finni, eða skoða hluti á internetinu sem aðrir hafa lesið/búið til. Hmmm….