Labbi labb
Bjarki er formlega byrjaður að labba, 21 mánaða gamall í alvörunni, en 18 mánaða í “hefði-átt-að-vera”-unni. Það bárust fréttir af leikskólanum að hann hefði tvisvar labbað meira en 10 skref á föstudeginum, en meira á hlið víst en beint áfram. Ekki vildi hann endurtaka afrekin á laugardeginum, en áðan fórum við í heimsókn til fjölskyldu Lulu og pabbi hennar fékk Bjarka til að labba til sín og Bjarki rölti út um allt eftir það. Vonandi ákveður hann að endurtaka leikinn í fyrramálið, því þá er von á þroskamats-konunni. Annars sagði Hrefna amma mér að Ásdís mamma hefði byrjað að ganga 19 mánaða, svo að kannski kippir honum bara svona í kynið?!
Í öðrum fréttum er að eftir hádegi á föstudegi fékk ég míní-magapestina sem hrjáði Önnu í vikunni þar á undan. Mér var óendanlega bumbult og afskaplega orkulítil, svo ég gat lítið gert nema legið eins og slytti í sólarhring, og missti þar með af stelpnahittingi hjá Margréti. Í staðinn horfði ég á Mamma Mia! myndina með Finni, og er búin að vera með Abba-lög á heilanum síðan… Voulez-Vous…A-HA!
Þegar loftpestin gekk yfir á laugardeginum dembdi ég mér í garðhreinsun, enda komið vor, það er 20 stiga hiti nokkra daga í röð. Réðst ég á runna með skærum og klippti af uppþornuð blóm frá því fyrra svo það sé pláss fyrir ný. Í dag skellti ég mér líka í eina garðbúðina og keypti grasfræ til að stoppa upp í gatslitna grasflötina fyrir aftan hús. En sum sé, það eru kominn grænn fiðringur í fingurna og ætti að endast í viku eða svo. Best að nýta sér fiðringinn á meðan hann endist!
Ég slæ botn í þetta í dag með nörda-myndum. Ég átti leið í raftækjabúðina Fry’s í dag, og sem fyrr kitlaði þema búðarinnar mig. Margar Fry’s búðir eru nefnilega með ákveðið “þema”: sú sem er í Palo Alto er skreytt í anda Villta Vestursins, í LA er ein í anda Lísu í Undralandi, og í Houston, Texas sá ég Fry’s í laginu eins og eldflaug/geimfar. Fry’s búðin í Sunnyvale er hins vegar tileinkuð “History of Silicon Valley” og því m.a. skreytt með sinc-fallinu, þar sem sinc(x) = sin(x)/x. Sinc-fallið góða er rafmagnsverkfræðingum að góðu kunnugt, og því yljar þessi sjón mér alltaf um hjartarætur…