Gúgul, kosningar og dýragarður
Við byrjuðum þriðjudaginn á því að skreppa yfir á Gúgul kampusinn og borða morgunmat þar ásamt bekknum hennar Önnu. Krakkarnir í bekknum höfðu búið til legó-módel og þetta var upphafið á vikulangri sýningu á þeim í mötuneytinu hans Finns. Eftir morgunmatinn röltum við aðeins um kampusinn, en svo lá leiðin upp í borg. Þar höfðu Þráinn og Elsa mælt sér móts við ræðismann Íslands á svæðinu, í þeim tilgangi að kjósa í alþingiskosningum. Við slógumst að sjálfsögðu í för með þeim og höfðum tvö umslög upp úr krafsinu sem við þurfum að muna eftir að póstleggja. Að kosningu og síðbúnum hádegismat loknum, þá keyrðum við yfir í dýragarðinn og gengum þar um í um tvo tíma. Um kvöldið borðuðum við góðan mat og sungum afmælissönginn fyrir Elsu yfir ís, súkkulaðisósu og berjum. Þar með lauk ævintýrum þriðjudagsins.