Foreldrafundur
Við erum að mestu búin að aðlaga okkur að tímabreytingunni sem varð um helgina, en þá var klukkunni flýtt um klst. Við erum líka hægt og bítandi að vinna á þvottafjallinu eftir skíðaferðina og er það vel.
Það markverðasta sem gerðist í dag var að við Finnur mættum á foreldrafund með aðalkennaranum hennar Önnu. Kennarinn “fílar” Önnu í tætlur, og er afskaplega ánægð með að hafa hana í bekknum. Hún sagði Önnu bráðþroska bæði líkamleg og andlega og að hennar helsta verkefni sem kennara væri að sjá við (“outwit”) Önnu.
Nokkrir punktar: Eitt af nýlegum verkefnum sem krakkarnir hafa tekið sér fyrir hendur er að búa til “pinjötu”, sem er lokaður pappakassi með góðgæti í sem er laminn í tætlur á afmælum og öðrum hátíðum. Kennarinn kynnti grunnteikningar (“blueprint”) fyrir krökkunum til að sýna þeim að það er gott að gera teikningar af því sem maður ætlar að búa til.
Anna tók sig til og teiknaði mynd af pinjötu, en ekki bara að framan, heldur líka hliðarsýn. Ekki nóg með það heldur tók hún líka fram hversu stór hurðin á pinjötunni átti að vera, með sérstöku striki til hliðar, því myndin sjálf var ekki í réttri stærð. Þetta mun víst ekki vera týpísk hegðun fyrir fimm ára krakka, svo það var svoldið spes. (Hér rúlla örugglega einhverjir fjölskyldumeðlimir augunum og hugsa “enn einn verkfræðingurinn”! 🙂
Annað sem hún sagði okkur var að Anna er hnútameistari bekkjarins. Krakkarnir koma til hennar til að fá bundna hnúta. Við tókum einmitt eftir því um daginn að Anna er búin að kenna sjálfri sér að binda slaufu, amk kannast enginn við að hafa kennt henni það. Hún er líka oft verkefnastjóri, enda höfðinu hærri en flestir hinir krakkarnir í bekknum.
Í lokin varaði kennarinn okkur við að þó svo allt væri með ágætlega kyrrum kjörum í augnablikinu, þá myndi spenningur vegna kindergarten byrja fyrr en síðar, svo við búumst við að Anna verði hoppandi af veggjum innan tíðar.