Fleiri skíðamyndir
2009-03-09Uncategorized Standard
Myndir frá skíðaferðinni af “stóru” myndavélinni. Mæli með að smella á myndirnar til að fá stærri útgáfu.
Ferðin gekk rosalega vel. Við lögðum af stað um hálf sjö á laugardagsmorgni og vorum komin upp á fjall fjórum tímum síðar. Cecile ferjaði okkur og dótið upp að húsi á vélsleða í tveimur ferðum. Finnur og Anna fengu sér smá að borða og fengu svo far með Cecile niður að hóteli þar sem þau tóku rútu að skíðasvæðinu í 10 mínútna fjarlægð. Þar hittu þau Sólveigu, Arnar og börn og skíðuðu með þeim fram eftir degi.
Finnur, Bjarki, Cecile og Anna á laugardagsmorgni
við vélsleðann með farangrinum okkar. Finnur fékk
að prófa sleðann við brottför á sunnudeginum.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=FDJeQj7qACA]
Ég var á meðan með Cecile og Derek. Við mokuðum aðeins af svölunum og fórum svo í gönguferð niður hæðina, að hótelinu, á snjóþrúgum. Ég var með Bjarka á bakinu í pokanum góða sem við keyptum fyrir Önnu á sínum tíma. Hann var miklu kátari þar heldur en á snjósleða, og undi sér vel þar fram eftir degi.
Bjarki skápastrákur í fínu snjóskónum sem Hildur benti okkur á.
Hann er orðinn nokkuð lunkinn við að standa óstuddur.
Það kom berlega í ljós í þessari ferð að við Finnur hlustum svona 90% hvort á annað. Þannig misskildum við hvort annað með síðdegisplönin. Finnur hélt að ég ætlaði að hitta þau á skíðasvæðinu, en ég hélt að við ætluðum öll að hittast við hótelið. Talstöðvarnar náðu ekki á milli, en um síðir komu skíðakapparnir niður í þorp og við borðuðum saman snemmbúinn kvöldmat. Síðan kvöddum við Sólveigu og fjölskyldu og þau keyrðu heim á leið en við áttum rólega kvöldstund uppi í húsi.
Sunnudagur
Við vöknuðum við sólarupprás, enda engin gluggatjöld til að skyggja á útsýnið. Við bjuggum til pönnukökur með súkkulaði upp á franskan máta – Finnur fékk sér nú bara sykur á sína pönnuköku samt. Plan dagsins var að Finnur varð eftir í húsinu með Bjarka í rólegheitunum á meðan ég fór með Önnu til að skíða örlítið á meðan Cecile og Derek fóru á gönguskíði. Þegar við vorum búnar að fá nóg af skíðunum þá fluttum við okkur yfir á sleðasvæðið hjá þorpinu. Þegar öllu lokaði klukkan fjögur, þá gengum við frá í húsinu og héldum heim á leið rúmlega fimm.
Anna dundaði sér lengi við að moka snjó af svöunum áður en við
mæðgur lögðum af stað á skíði og svo sleða.