Afmælisdagur
Nú er 32ja ára afmælisdagurinn að kvöldið kominn – og rúmlega það! Áður en ég hryn í bælið vil ég samt fyrst þakka kærlega fyrir allar góðu kveðjurnar og símtölin, alltaf gaman að heyra í vinum og ættingjum! Við áttum afskaplega góðan dag, og gott ef þetta var ekki besti afmælisdagurinn í nokkur ár bara… Að venju fékk ég að sofa út, og fékk svo morgunmat í rúmið, svo og afmælisgjöf – Wii Fit pakka svo nú get ég farið að hamast fyrir framan tölvuna eins og Holla! Næstu klukkustundirnar fóru í símtöl, að leika sér með nýju græjuna og undirbúa litla veislu.
Um kaffileytið fóru gestir að bera að garði, og það tók ekki langan tíma áður en allir voru búnir að skrá sig inn í Wii Fit kerfið og taka “inntökuprófið” sem segir manni hvað maður er gamall í Wii Fit árum. Ég var unglamb, bara 27 ára, á meðan Finnur reyndist 49 ára! Á móti kom að hann er í kjörþyngd, og ég uhh… ekki! Krakkarnir fóru yfir um í tölvunni, og ég spái því að við eigum eftir að þurfa að díla við Önnu-Wii fráhvarf. Um kvöldmatarleytið fóru gestirnir að týnast heim, en sumir sátu fram á kvöld. Allt í allt, afskaplega góður dagur, með engu stressi og í góðra vina hópi. Gerist það nokkuð betra?