Tannsi
Fór með Önnu til tannlæknis í morgun. Þriðja tannlæknaheimsókn hennar og þriðji tannlæknirinn líka – og sá besti hingað til. Eða sú besta því að tannsinn er kvenkyns. Íslenska er hálf-fötluð þegar kemur að starfsheitum og kynjum! Hvað um það, Anna er ennþá með 20 tennur og engar skemmdir, svo það var gott. Sú ekki-svo-stutta stóð sig annars rosalega vel, þrátt fyrir að henni hafi ekki alveg litist á tannlæknastólinn í upphafi.
Svo bönkuðu möguleg-framtíðarplön upp á dyrnar í tölvupósti, ég sagði þeim að ekkert yrði ákeðið fyrr en nær drægi sumri. Þar var einn strákur að láta mig vita að Noregur er búinn að veita fullt af peningum til háskólans í Tromsø (já, norðar en Ísland!) til að byggja upp fjarkönnunarmiðstöð, og hvort ég hefði áhuga á að sækja um póst-dokk stöðu. Það er sem sagt næsta stig eftir doktors-gráðu, svokölluð “eftir-doktors-staða” – sem er alveg eins og að vera doktorsnemi víst, nema að maður fær aðeins betur borgað.
Þá fór ég að velta fyrir mér hvort við myndum í aaalvörunni nenna að rífa okkur upp frá Kalí til að flytja á alveg nýjan stað þar sem við þekktum engan. Ég sé fyrir mér að flytja heim til Íslands í faðm fjölskyldu og vina, en ég veit ekki hvort við höfum lífsorku í að byrja allt upp á nýtt. Stórt framtíðar-andvarp. Silly kreppa! Hrumph!