Sprengja!
Samkvæmt netfyrirtækinu var von á viðgerðarmanni til okkar til að laga netsambandið í dag milli 1 og 5 eftir hádegi. Þar sem að skrifstofan er á efri hæðinni, þar sem fáir ókunnugir hætta sér nokkurn tímann, þá var ljóst að það þyrfti að taka heilmikið til hendinni svo greyið viðgerðarmaðurinn myndi ekki detta um eitthvað – eða hlaupa öskrandi út.
Fyrsta skotmarkið var herbergið hennar Önnu, en ég og hún erum að endurtaka hreingerningarsamband mín og mömmu – fyrst hleðst upp svo mikið dót á gólfinu að það er erfitt að fóta sig og síðan er heldur betur tekið til hendinni og öllu skutlað á sinn stað. Næst á dagskrá var tölvuherbergið sjálft, en það fyrsta sem blasti við þar voru óhrein föt af heimasætunni. Hún er nefnilega búin að læra á Picasa myndaforritið á tölvunni, og á það til að klæða sig úr náttfötunum og í dagfötin á meðan hún horfir á “slideshow” (skyggnusýningu?) af myndunum okkar – og gleyma síðan að fara með fötin í óhreina þvottinn.
Nú var ég komin á “rúllu”, og þar sem Anna vildi fara út að hjóla (það voru krakkar úti á götu!!!) þá þótt mér tilvalið að ráðast loksins á bílskúrinn, sem hefur lengi fengið að sitja á hakanum. Þar var til dæmis ennþá vaðlaug til þerris frá september í fyrra, svo ekki sé minnst á garðsólhlífina frá því í október og fjólubláa fiðrilda-garð-tjaldið. Ég hafði reyndar tekið forskot á sæluna í gær og brotið saman og hent út fullt af gömlum pappakössum sem fjölga sér eins og kanínur inni í þessum bílskúr, að því er virðist. Á meðan Anna hjólaði eins og eldibrandur fram og til baka eftir botnlanganum okkar, þá jókst gólfplássið í bílskúrnum, og nú er svo komið að það væri líklega hægt að troða bílnum inn, ef við ættum ekki öll þessi hjól! Jei! 🙂
Þegar viðgerðarmaðurinn hafði lagað til eftir starfsbróður sinn, þá hrúguðumst við öll inn í bíl og héldum til fjölskyldu Lulu í eftirmiðdagsheimsókn. Þar vorum við búin að mæla okkur mót við Bacon Explosion, eða Beikon-Sprengju, sem birtist í fréttum fyrir tveimur vikum eða svo. Sprengjan var mjög góð, en kannski heldur beikon-snauð að innan, sem þýddi að hún var í raun næstum eins og kjöthleyfur. Við nánari athugun kom í ljós að við vorum með miklu minna beikon inni í rúllunni en myndir á netinu sýna, en hvort við leggjum í að leiðrétta mistökin veit ég ekki.