Skref, skilað og keypt
2009-02-18Uncategorized Standard
Merkilegheit dagsins voru að Bjarki tók (óvart) þrjú skref óstuddur í morgun. Nú er að sjá hvenær hann kemur til með að endurtaka leikinn. Á morgun? Eftir viku? Mánuð? Óþolinmóð móðir? Ó, já!
Í dag var miðvikudagur svo að ég mætti á hópfund að vanda í hádeginu. Eftir fundinn skilaði ég af mér (heldur stuttu) uppkasti að einum ritgerðarkafla. Þar með eru komin uppköst að tveimur undirstöðuköflum, en nú fer róðurinn að þyngjast því ég þarf að fara að taka á því sem upp á vantaði í vörninni og nefndarmenn kvörtuðu sáran yfir. Þegar því líkur þarf ég að fara á óskrifaðar slóðir, sem á eftir að taka ennþá meiri tíma. Með þessu áframhaldi er ólíklegt að ég nái í land fyrir júní, en ég stefni samt á það. Ég veit því miður í bakhöfðinu að ég er lögleg í landinu fram í október…
Mér tókst að koma mér út af kampus um þrjúleytið, sem er met því að ég ílengist alltaf til fimm – sjaldan sem ég hef tækifæri til að spjalla við fólk eins og á kampus. Leiðin lá í tvær af búðunum úr verslunarferð sunnudagsins. Fyrst fór ég og skilaði vetrarstígvélunum sem ég hafði keypt á Bjarka og hann tók ekki í mál að fá á fæturna. Í staðinn keypti ég snjóþotu.
Síðan fór ég í aðra búð til að skila snjóþotunni sem við keyptum síðasta sunnudag. Ástæðan var sú að hún er svo undarlega hönnuð að það er ekki nokkur leið fyrir fullorðinn að sitja á þeirri þotu með barn í fanginu – eins og Sólveig benti á á mánudaginn. Í staðinn fór ég á skíða-buxnaleit í þeirri veiku von að finna eitthvað nothæft.
Ég endaði á því að passa nokkurn veginn í XL karlmanns-buxur og ákvað að kaupa þær í staðinn fyrir pollabuxur og flísbuxur undir. Svo fann ég þennan fína rauða skíðajakka, nema einhver álfurinn var búinn að fjarlægja innri jakkann úr jakkaskelinni. Þar með mátti ekki selja jakkann lengur, en mér var sagt að búðin haldi “as-is” sölur fyrsta laugardag í hverjum mánuði, og að ef ég mætti fyrst um morguninn, þá gæti ég keypt jakkann fyrir slikk. Eini gallinn er að ég var að vonast til að vera komin á skíðasvæði, eða á leiðinni á skíðasvæði fyrsta laugardaginn í mars. Andvarp.