“Rigning”
Veðurspá dagsins var “showers”, það er “rigningarskúrar” – sem þýddi að gangstéttin var blaut í morgun, og svo var léttskýjað það sem eftir lifði dags. Týpískt. Mér tókst að vera þrjóskari en Bjarki í morgun og svæfði hann – og sjálfa mig skömmu síðar. Sá stutti var heldur aumur þegar hann vaknaði. Hvort það var eyrnabólgan eða tannverkur veit ég ekki, en hann uppskar verkjalyf fyrir vikið og átti víst góðan dag á leikskólanum. Það nýjasta nýtt hjá Bjarka er að hann er farinn að æfa sig að standa upp og standa óstuddur og svo segir hann “ó, óóó” þegar eitthvað fer úrskeiðis.
Þegar ég mætti í kaffiteríuna á leikskólanum til að borða síðbúinn hádegismat var búið að skipta um nokkrar innréttingarnar – búið að fjarlægja ljótar málmhillur og setja fínar tréhillur í staðinn og koma fyrir fínum skenk. Í ljós kom að það er nýbúið að breyta því hverjir koma með mat fyrir kennarana – og einstaka foreldri/afætu. Nú mun maturinn koma frá 150 kaffinu, og yfirkokkurinn þar kom víst til að taka út mötuneytið á leikskólanum, leist ekkert á aðstöðuna, og kippti í strengi til að fríska upp á það. Kennararnir voru afskaplega glaðir, og ég bíð spennt eftir að sjá hvaða mat verður boðið upp á.
Mér varð lítið úr verki í dag, held að ég hafi bara náð að leita uppi eina tilvísun og skrifa þrjár málsgreinar, en þær voru svona intro-málsgreinar (algjört uppfylliefni, nauðsynlegt en sársaukafullt) sem er það mér finnst erfiðast að skrifa. Í kvöld ákvað ég að vera ógeðslega dugleg og byrja á bandarísku skattskýrslunni (ugh, við skuldum skattinum), og horfa á Heroes í verðlaun.